153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[14:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessari endurvinnslu, þetta er í fimmta sinn sem þetta frumvarp er lagt fram og ráðherra hefur ekki haft fyrir því að uppfæra greinargerðina með frumvarpinu sem nær yfirleitt til 2016, 2017 og jafnvel til ársins 2018. En þess ber að geta að núna er árið 2022. En af því að hæstv. dómsmálaráðherra hefur gaman af tölum og er að bera saman Ísland og Norðurlöndin þá er rétt að geta þess að hlutfallslega ættu að vera 12 þingmenn á Alþingi Íslendinga og einn ráðherra í 85% stöðu ef við ætlum að vera að leika okkur með svona tölur. En ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað er það í frumvarpinu sem kemur í veg fyrir að hingað komi fordæmalaus fjöldi flóttafólks? 80% þeirra sem hér eru og hafa sótt um vernd á Íslandi eru frá þeim tveimur ríkjum sem stjórnvöld á Íslandi hafa tekið ákvörðun um að veita vernd, þ.e. Úkraínu og Venesúela. Er eitthvað í þessu frumvarpi sem kemur í veg fyrir að fólk frá þessum ríkjum (Forseti hringir.) og öðrum þeim sem íslensk stjórnvöld taka ákvörðun um að veita vernd komi hingað til lands?