153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:23]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil fá að lýsa skoðun minni varðandi þessa beiðni hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur um að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sé hér í salnum. Þar sem hér er verið að halda því fram að innviðir í landinu séu sprungnir og við séum ekki í neinni stöðu til þess að sinna því fólki sem leitar hingað til landsins, þá er eðlilegt að sá sem sér um þá þjónustu sem þarf að veita sé hér. Ég heyrði það í fjölmiðlum núna í vikunni að sá sem sinnir búsetuúrræðum hjá Rauða krossinum segir: Við erum ekkert komin að því, það er ekkert neyðarástand í búsetuúrræðum fyrir þennan hóp. Það er eðlilegt að félags- og vinnumarkaðsráðherra sé hér og ræði við okkur um þá stöðu sem hæstv. dómsmálaráðherra er að lýsa sem skelfilegri.