153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú rifja ég upp það sem allmargir hv. þingmenn nefndu hér áðan við virðulegan forseta, mikilvægi þess að hæstv. félagsmálaráðherra mæti hér og fylgist með a.m.k. og taki helst þátt í þessari umræðu. Ég veit að ráðherrar eru uppteknir eins og þingmenn og geta ekki tekið þátt í umræðu um öll mál en hér hafa verið færð sterk rök fyrir því að þetta mál varði hæstv. félagsmálaráðherra ekki síður en hæstv. dómsmálaráðherra. Hæstv. dómsmálaráðherra að vísu leggur það fram, þetta er hans mál, en það hefur bein áhrif á starfssvið hæstv. félagsmálaráðherra og svo bætist það við að sá hæstv. ráðherra hefur verið mjög afdráttarlaus í yfirlýsingum og gagnrýni sinni í raun á samráðherra sinn. Því vill hæstv. ráðherra ekki taka þátt í umræðunni hér í þingsal með þingmönnum? Ætlar hann að láta nægja að senda pillur í fjölmiðlum fremur en að taka þátt í umræðu um málið sjálft?