153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:23]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég viðurkenni að ég er smá hugsi eftir þetta svar hv. þm. Orra Páls Jóhannssonar um ráðherra félagsmála og ráðherra vinnumarkaðsmála, þetta frumvarp tekur m.a. á hans málaflokki. Eins og ég skil það er verið að taka þjónustu sem fellur undir hans ráðuneyti og færa yfir í dómsmálaráðuneytið. En ég hefði talið að það væri svona lykilatriði, sérstaklega í ljósi gagnrýni hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra í opinberri umræðu — við þurfum bara að fá að ræða við hann um þessar breytingar. Ég skil ekki alveg, það er talað um að hann eigi ekki heimangengt. Ég átta mig ekki alveg á hvað það þýðir. Ef hann er að fara til útlanda í ákveðnum erindagjörðum í fyrramálið, af hverju getur hann þá ekki komið í dag eða í kvöld? Við verðum hérna væntanlega til miðnættis. En ef svo er ekki, ef ráðherra getur ekki komið og rætt við okkur um áhrifin sem þetta frumvarp hefur á hans málaflokk, þá er bara um að gera fresta þessu þangað til hann kemur til baka. Ég meina: Af hverju í ósköpunum erum við að klára umræðu um mál og ráðherra getur ekki einu sinni séð sér fært að koma og taka þátt í umræðunni með okkur?