153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:08]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar sitt. Jú, löggjöfin þarf að vera í samræmi við það sem er á hinum Norðurlöndunum til að uppfylla þessar lagalegu skyldur. Framkvæmdin þarf líka að vera það. Ég get tekið dæmi úr 6. gr. varðandi 30 daga regluna að hámarki. Segjum sem svo að sá sem fær endanlega synjun fái ákveðin réttindi í 30 daga og svo ekkert meira. Þá verður ríkið í framkvæmdinni að koma með eitthvert annað úrræði, húsaskjól og geta boðið upp á fæði og húsnæði. Það er klárt mál að sá sem er hér lengur en í 30 daga er kominn í þvingaða brottför. Þá þarf að liggja fyrir málsmeðferð í þvingaðri brottför sem, ef við fylgjum meðalhófinu, er vægust mögulega til að ná markmiðinu um að einstaklingurinn fari úr landi, hann eða hún. Það efast ég um að sé raunverulega í gildi núna. Það er það sem við erum að horfa á út frá því. Mér finnst þessi grein allt í lagi en það verður að vera ákveðin framkvæmd í gangi sem (Forseti hringir.) sér um fólkið. Eitt sem ég efast algerlega um og það er þessi sjálfkrafa kæra í 2. gr. Ég tel hana ekki skipta neinu máli.