153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:44]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mér virðist sem svo að hv. þingmaður sé ekki ýkja hrifinn af því frumvarpi sem er til umræðu hér og mig langaði að spyrja hann að nokkrum hlutum. Mér heyrðist hann fullyrða að ekki væri verið að gera kerfið skilvirkara en nefnir því til stuðnings ýmsa vankanta sem frumvarpið taki einhvern veginn ekki á. En hvað með það sem er í frumvarpinu og er ætlað að lagfæra ýmsa hluti, bara ef við höldum okkur við greinargerðina sem er til umræðu í dag? T.d. ákvæði um sjálfkrafa kæru ákvarðana í ákveðnum tilvikum svo hægt sé að stytta málsmeðferðartíma eða um sérstaka málsmeðferð endurtekinna umsókna, að fyrirmynd annarra Evrópuríkja, bara svo ég taki einhver dæmi. Er andstaða hv. þingmanns til komin út af öllu því sem frumvarpið gerir ekki? Eða hvað finnst hv. þingmanni t.d. bara um þessi tilteknu atriði sem ég nefni hér?