153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:22]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir þetta. Ég leyfi mér að gagnrýna mjög hvasst þegar mér finnst menn tala ógætilega í þessari umræðu. Ég tel sjálfan mig ekki tala ógætilega um þennan tiltekna hóp sem hér er undir en ég tel mig oft vera hvassan í garð þeirra sem eru að taka ákvarðanir varðandi hópinn. Þarna er auðvitað svolítill munur á. Ástæðan fyrir þessari skautun er m.a. það sem ég er að nefna, sem er það hvernig stjórnmálamenn tala, hvernig stundum er blásið í hundaflautuna og hinu ósagða einhvern veginn laumað út. Það skilja allir við hvað er átt en það er samt ekki sagt berum orðum. Danir eru einfaldlega einhverra hluta vegna harðari í sinni nálgun á þessu heldur en til að mynda Norðmenn. Ég held að ég geti ekki krufið nákvæmlega hver skýringin á því er. Ég held að ástæðan fyrir skautuninni í Svíþjóð geti að einhverju leyti verið sú að þeim hafi mistekist talsvert mikið að (Forseti hringir.) aðlaga fólk samfélaginu, enda fara þeir allt aðra leið en Norðmenn í því. (Forseti hringir.) Það skýrir síðan aftur að öfgafyllri hópar vaða uppi þar (Forseti hringir.) eins og við erum t.d. búin að sjá nýleg dæmi um í kosningum. Þannig að það geta auðvitað verið svolítið margar skýringar á þessu.