153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:56]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Mál það sem hér er til umræðu varðar mikilvægan en í senn viðkvæman málaflokk. Málaflokk sem varðar fólk sem margt hefur flúið heimili sitt vegna átaka eða náttúruhamfara og er jafnan í mikilli neyð. Ég tel að þegar svo ber undir að málefni eru umdeild og varða fólk í viðkvæmri stöðu sé það lykilatriði að mál hljóti þinglega meðferð. Á málinu hafa verið gerðar umtalsverðar breytingar frá síðustu framlagningu. Í þessu samhengi er mikilvægt að ekki sé fallið frá því í núverandi frumvarpi að einstaklingar sem þegar hafa fengið vernd í öðru ríki geti fengið efnismeðferð hér vegna sérstakra tengsla og aðstæðna, til að mynda fjölskyldubanda. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði þar sem áhersla er lögð á mannúð umfram skilvirkni.

Sveitarfélögin eru lykilþáttur í velsæld þeirra útlendinga sem hér fá vernd. Það á við hvort heldur sem um ræðir viðbragð við bráðavanda sem fyrir liggur í því ófremdarástandi sem stríðið í Úkraínu og loftslagsbreytingar kalla fram með tilheyrandi aukningu fólks á flótta. Hitt er það að horfa þarf til langtímamarkmiða um inngildingu nýrra Íslendinga, en þar skipa sveitarfélögin ekki síður mikilvægan sess. Ef við lítum til Norðurlandanna er alveg ljóst að inngildingin er það sem skiptir sköpum um hvort það skapist vandi eða lausnir við komu fólks til landsins. Stór liður í því að finna sig í nýju samfélagi er að skilja tungumálið og í því sambandi er mikilvægt að bjóða þeim sem hingað koma upp á íslenskukennslu. Stefna stjórnvalda í Svíþjóð og Danmörku hefur leitt til þess að samfélög útlendinga hafa einangrast og stjórnvöld farið á mis við tækifæri til gagnlegrar inngildingar. Tungumálið er lykillinn að virkni á vinnumarkaði og tengslum við samfélagið. Það er ekki við fólkið að sakast heldur misbresti í móttöku þess og skort á markvissri inngildingu. Norðmenn hafa hins vegar lagt áherslu á inngildinguna, öflugan stuðning við sveitarfélög og tungumálakennslu til allt að fimm ára. Með þessu móti eru Norðmenn að skapa tækifæri, efla samfélög og standa vörð um innviði til langs tíma. Hér eru of fá sveitarfélög með þjónustusamning og vil ég nota þetta tækifæri og hvetja sveitarstjórnarfólks til að taka af skarið og leggja því lið að slíkum samningum fjölgi. Fólk á flótta glímir oft og tíðum við margþættan vanda vegna þeirra hörmunga sem mörg hver hafa gengið í gegnum. Því er mikilvægt að standa vel að stuðningsúrræðum vegna áfalla og vandamála tengdum þeim, öllum til heilla. Aukið álag til skamms tíma þekkjum við Íslendingar mætavel. Við kunnum að bregðast hratt við þegar náttúruhamfarir, heimsfaraldur eða aðrar ógnir berja að dyrum. Við þurfum að útvíkka hugsunina, minnast þess að við erum hluti af heimsþorpinu og mannúðin verður að ná út fyrir Íslendingabók. Mikilvægt er að málið nái að ganga til allsherjar- og menntamálanefndar en þar gefst okkur færi á víðtæku samráði sem hefur sýnt sig að skiptir höfuðmáli til þess að sem breiðust sátt náist og öll sjónarmið fái að komast að.

Herra forseti. Það er mikilvægt að lög um útlendinga séu skýr, standi vörð um mannréttindi fólks og séu til þess fallin að tryggja að móttaka sé með sæmandi hætti með mannúð að leiðarljósi. Það er mikilvægt að því sé haldið til haga að í lögum um útlendinga er það rauður þráður gegnum lagabálkinn að standa vörð um réttindi fólks og ekki síst barna. Það er tilgangur laganna, eins og hann er skilgreindur í 1. mgr. 2. gr., með leyfi forseta:

„… að kveða á um réttarstöðu og tryggja réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins eða fara frá því, sækja um dvalarleyfi eða dveljast hér á landi samkvæmt lögunum.“

Að lokum, herra forseti, langar mig að segja: Við erum samfélag í mikilli þróun. Ísland, sem var fyrir nokkrum áratugum með félagslega einsleitustu stöðum á byggðu bóli, er núna orðið fjölmenningarsamfélag. Í mínum huga er það mikil heilla þróun að Íslendingum fjölgi, að hingað komi fólk frá öllum heimshornum sem auðgi mannlífið. Við allar breytingar er eðlilegt að það marri og hrikti í fúnustu stoðunum. Verkefnin eru því ærin og ævarandi að tryggja velsæld og virðingu alls fólks óháð því hvaðan það kemur.