153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:05]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að biðja hv. þm. Jódísi Skúladóttur afsökunar af því að svo vill til að hún fór einu orði um ákvæði þessa frumvarps og það var eina ákvæðið sem tekið var út. Það var sem mig grunaði. Ég hugsaði lengi með mér að hv. þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefðu sennilega ekki lesið frumvarpið og væru þess vegna til í þetta. Ég er enn meira á því núna, vegna þess að eina ákvæðið sem var kippt út og varð til þess að þingflokkur Vinstri grænna afgreiddi það án athugasemda úr sínum þingflokki er ákvæði sem ég er búin að verja vikum og mánuðum í að tyggja ofan í þjóðina og þingið. Nú er það farið út og þá er allt í lagi. Mig langar bara að hvetja hv. þingmann til að lesa frumvarpið betur. Mér heyrðist á ræðu hennar og andsvari að hún hefði sennilega ekki lesið það nógu vel, en saman munum við fara vandlega yfir það í okkar nefnd.

Spurningin sem mig langar að beina til hv. þingmanns í mínu síðara andsvari er: Hvað fenguð þið í staðinn? (Forseti hringir.) Fyrir hvað eruð þið að láta þetta ganga yfir þingið?