153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Stytta málsmeðferðartíma, já. Sagan sýnir okkur að málsmeðferðartíminn styttist verulega þegar tímarammi var settur í lög um útlendinga með breytingunum sem átti sér stað 2016. Þar var sett inn nokkuð sem varð að ákveðnu tæki fyrir stjórnvöld til að hraða málsmeðferð. Nú starfaði ég í þessum málaflokki hér á árum áður og þá gat fólk beðið í fimm, sex, sjö ár eftir niðurstöðu af því að það var enginn rammi hjá stjórnvöldum. Eftir að stjórnvöld fengu þennan ramma þá styttist tíminn verulega. Þetta segir sagan okkur. Óttast hv. þingmaður ekki að þetta kunni að leiða til þess að málsmeðferðartíminn fari þá bara aftur út um víðan völl og við sitjum uppi með fólk sem á kannski ekki rétt á vernd, sem bíður þá eftir niðurstöðu mála sinna árum saman af því að það er verið að reyna að hraða einhverjum öðrum málum eða slíkt?