153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:30]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Það er talað um endurteknar umsóknir í Evrópureglum. Þrátt fyrir það eru reglur ríkja á milli nokkuð ólíkar hvað það varðar. Það eru mörg ríki með ákvæði um að endurtekin umsókn, ef hún er lögð fram á nákvæmlega sama grundvelli og áður og ekkert nýtt er komið fram og annað, fari í ákveðna flýtimeðferð. Það sem þarna er hins vegar verið að gera er að það er verið að óvirkja grundvallarrétt fólks til að fá mál sitt endurupptekið ef fram koma ný gögn og nýjar upplýsingar. Það er ekkert verið að tala um endurtekna umsókn. Við erum að tala um fólk sem er enn statt hér á landi. Að mínu mati er tilgangurinn með þessari breytingu augljós. Hann er sá að koma í veg fyrir öll þessi mál sem eru að vinnast í endurupptöku. Það er fyrst og fremst þar sem okkur hefur tekist að leiðrétta algerlega fráleitar ákvarðanir stjórnvalda og fráleita niðurstöðu Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála og fengið þessi sömu stjórnvöld til þess að leiðrétta ákvarðanir sínar, það er í gegnum endurupptökuferlið. (Forseti hringir.) Þetta líkar höfundum frumvarpsins ekki og það eru ekki bara einhverjir sérfræðingar hjá Útlendingastofnun, það er pólitísk afstaða.