153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[23:21]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Má þá skilja það þannig að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi óskað eftir því að það væru engar undanþágur frá því ef viðkomandi væri með vernd? Má ætla að óskað verði eftir því af formanni allsherjar- og menntamálanefndar að málið taki slíkum breytingum inni í nefndinni við meðferð málsins?

Að lokum vil ég spyrja hv. þingmann út í afstöðu hennar gagnvart þeirri sátt sem var gerð á Alþingi haustið 2017, fyrir kosningar, þegar önnur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks sprakk á rúmu ári. Þá var gert samkomulag um að það yrði samráð og aftur farið í þverpólitíska vinnu við lagfæringar og breytingar á útlendingalögunum. Hvernig litist hv. þingmanni á það? Nú fór þetta frumvarp t.d. ekki í neitt samráð og kölluðu mörg hagsmunasamtök eftir því núna í haust að það yrði gert. (Forseti hringir.) Samráð við aðra þingflokka hefur ekkert verið, hvorki núna né þá, og hefur ekki verið síðan þingmannanefndin starfaði undir forystu Óttars Proppés. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það kæmi til greina að hvíla þetta frumvarp og fara í heildræna skoðun á málaflokknum?