153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

skuldbindingar vegna ÍL-sjóðs.

[15:11]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Kreddupólitík hæstv. ríkisstjórnar virðist nú vera að ná hámarki. Hæstv. fjármálaráðherra fetar í fótspor fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Liz Truss, með glannaskap í efnahagsmálum, heldur blaðamannafund um það hvernig hann ætli að spara þjóðinni fúlgur fjár með því að knýja gamla Íbúðalánasjóð í þrot. Það er álíka vanhugsað og hugmyndir Truss um að hægt sé að endurreisa breska hagkerfið með því að ráðast í umfangsmiklar skattalækkanir, ásýndarstjórnmál drifin áfram af úreltri hugmyndafræði um útvistun á pólitískri ábyrgð. Íslenskir fjármálamarkaðir kaupa ekki þessa hugmynd hæstv. ráðherra, ekki frekar en markaðir keyptu skattalækkunarhugmyndir bresku ríkisstjórnarinnar, enda er þetta enn ein bókhaldsbrellan, tilfærsla á skuld, tilfærsla á pólitísku verkefni sem fór illa yfir á lífeyrissjóði landsins. Það er í hæsta máta óábyrgt að bera þessa vúdú-hagfræði á borð fyrir þjóðina. Annaðhvort skilur hæstv. fjármálaráðherra ekki hvernig einfaldar fjármálaafurðir virka eða hann er að ljúga að þjóðinni og ég veit ekki hvort er verra. Þegar á hæstv. ráðherra er gengið er svarað með frekju og hroka og skýlt sér á bak við lögfræðiálit um lögmæti þessarar aðgerðar sem er engan veginn afdráttarlaust. Samkvæmt hæstv. ráðherra ætlar ríkissjóður enga ábyrgð að bera á framtíðarskuldbindingum opinberrar stofnunar sem sett var á laggirnar í pólitískum tilgangi með lífeyri þjóðarinnar að veði.

Ég spyr því: Hvaða sjónarmið lágu á bak við ákvörðun hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar að sækja hátt í 200 milljarða kr. inn í ÍL-sjóð á tímum heimsfaraldurs, fara fram hjá markaðnum í útgáfu skuldabréfa og festa ofurhagstæð kjör fyrir ríkissjóð á lánum frá ÍL-sjóði allt til ársins 2034? Ef ætlunin var aldrei að standa undir framtíðarskuldbindingum sjóðsins er þessi snúningur býsna skuggalegur.