153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

framsetning fjárlaga.

[15:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hérna á þingi erum við að samþykkja alls konar lög fram og til baka, við erum með lög um kvikmyndir, dómstóla, almannatryggingar og ýmislegt svoleiðis. Þau réttindi sem við leggjum þar til eða skyldur á stjórnvöld kosta einhvern pening. Þar að auki er framkvæmdarvaldið að gera margvíslega samninga við ýmsa aðila, t.d. Strætó. Ég hef rekið mig dálítið á það í fjárlagagerðinni, vinnslu fjárlaga — sem er í rauninni þungamiðjan í starfi þingsins, en það er framkvæmd og fjármögnun allra þeirra verkefna sem við setjum hérna með lögum — að stundum eru ekki efndir á bak við þau lögbundnu verkefni sem hér eru ákveðin.

Taka má sem dæmi lög um almannatryggingar. Í 69. gr. segir að lífeyrir eigi að fylgja launaþróun, en hann hefur ekki gert það. Það eru gefnar einhverjar skrýtnar útskýringar á því að launaþróun sé einhver önnur í ráðuneytinu en almennt séð. En dæmið um samning við Strætó, styrkingu rekstrar á Strætó, er mjög gott dæmi um þann vanda sem ég lendi í við afgreiðslu fjárlaga. Árið 2012 gerir ríkið samning um aðstoð við rekstur Strætó upp á 1 milljarð. Þar er kveðið á um að sú fjárhæð eigi að vera verðtryggð og verðbætt en hún hefur síðan ekki verið það af því að það er undanþága um fyrirvara eftir samþykkt Alþingis. Nú lendi ég í því að þegar fjármálaráðherra kemur hingað með fjárlög, þá kemur hann með upphæð um samning við Strætó þar sem ekki er búið að uppfylla ákvæðin með heilli upphæð heldur með óverðtryggðri upphæð. (Forseti hringir.) Alþingi fær ekki rétta upphæð í hendurnar til að taka ákvörðun um. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju þurfa ráðuneytin ekki að uppfylla kröfur laga og samninga þegar lögð eru fram fjárlög?