153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

framsetning fjárlaga.

[15:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er sá að þetta er sjaldnast á forræði þingsins. Þó að það sé einmitt þingið sem samþykkir og svoleiðis þá vitum alveg hvernig ríkisstjórnarsamstarfið er hérna; það er meiri hluti, það eru ráðherrarnir og tillögurnar koma frá ráðuneytunum. Annað er í mjög litlum mæli, það eru einhverjar breytingartillögur fjárlaganefndar sérstaklega sem eru kynntar sem slíkar og maður veit alveg að þá er búið að spyrjast vel fyrir um það í ráðuneytunum hvort þetta sé ekki örugglega nægilega lág upphæð o.s.frv. Það eru fleiri svona dæmi, eins og niðurgreiðsla á sálfræðiþjónustu, það er annað dæmi um mál sem ráðherra kemur með til þingsins en ekki með þá upphæð sem dugar til að fjármagna úrræðið. Mér finnst það mjög skrýtið því að ef þetta á að vera ákvörðun Alþingis ætti ráðherra að koma með alla upphæðina sem þarf til þess að fjármagna þessi lög en segja: Við leggjum til aðra upphæð sem breytingartillögu ef þingið samþykkir. Það á að byrja á heildarfjárhæðinni til að við vitum alvöruumfangið.