Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[16:56]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hér er mikilvægt mál á ferð og það er rétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði að hér erum við svo sannarlega að tala um drauga fortíðar. Við erum að tala um árið 2004, fjórum árum fyrir hrun, gósentíð í íslensku samfélagi og allt átti að gera og við áttum að sigra heiminn. Það er alveg augljóst mál að þessir draugar fortíðar munu hafa áhrif á framtíðina. Hér er í eðli sínu um frekar einfalt mál að ræða, skuldabréfaútboð árið 2004 sem var undir umsjá Deutsche Bank. Þar voru þrír skuldabréfaflokkar sem féllu á gjalddaga 2024, 2034 og 2044. Höfuðstóll bréfanna var verðtryggður og vextir voru fastir, 3,75%. Skuldbindingar ríkissjóðs samkvæmt þessum skuldabréfum lágu fyrir árið 2004. Það hefur ekkert breyst, ekki neitt. Og núna kemur hæstv. fjármálaráðherra og heldur því fram að þetta sé allt rosalega óvænt. Þetta er mesta klúður íslenskrar stjórnmálasögu. Þetta útboð sýnir hvers konar fúsk og flokkshestar réðu ríkjum og komu að þessu máli á sínum tíma. Þetta er algjört hneyksli og ekkert annað.

Ég ætla ekki að dvelja lengur við það hvernig þetta var á sínum tíma. Ég skil fjármálaráðherra vel og ég þakka honum fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi Íslendinga. En þær leiðir sem hann leggur til eru þrjár. Sú fyrsta er að gera ekki neitt og standa við skuldbindingar ríkisins samkvæmt ábyrgðinni. Ég tek fram: Sú fyrsta er að standa við skuldbindingar ríkisins samkvæmt ábyrgðinni. Önnur er að krefjast uppgjörs á skuldum sjóðsins nú þegar með því að knýja fram skipti, þ.e. að standa ekki við skuldbindingar ríkisins samkvæmt ábyrgðinni. Þriðja leiðin er að taka upp viðræður við kröfuhafa ÍL-sjóðs sem gæti leitt til slita sjóðsins sem fæli það í sér að ekki væri verið að standa við skuldbindingar samkvæmt ábyrgðinni. Af hverju? Jú, af því að ábyrgðin er til 20 ára, 30 ára og 40 ára. Ef ég lofa að gera eitthvað í 40 ár þá verð ég að standa við það. Fjármálaráðherra virðist halda því fram að ekki þurfi að standa við það. Svo einfalt er það.

Annað sem er hér undir er að ÍL-sjóður er hluti af ríkinu. Hann tók við af Íbúðalánasjóði. Það hefur m.a. Eurostat bent á í ráðgjöf sinni til Hagstofu Íslands. Bent er á það í lögfræðiáliti vegna málsins að ábyrgð ríkisins sé til komin vegna þeirrar stjórnskipunarvenju að ríkið beri ábyrgð á skuldbindingum opinberra stofnanna. Það verður að segjast eins og er að leiðir tvö og þrjú fela í sér að ríkið standi ekki við skuldbindingar sínar gagnvart ÍL-sjóði, standi ekki við skuldbindingar samkvæmt ábyrgðarskilmálunum í bréfunum. Það hefur aldrei gerst í sögu Íslands, sögu frá 1918, í sögu lýðveldisins að íslenska ríkið hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar — aldrei. Það er alveg augljóst mál að núna hyggst fjármálaráðherra reyna að finna leiðir til þess að standa ekki við skuldbindingar sínar. Það er bara þannig. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því. Og hverjir eru fórnarlömbin? Jú, það eru eigendur þessara skuldabréfa, íslenskir lífeyrissjóðir. Ég get ekki annað séð en að með þessu sé í raun og veru verið að reyna að fara í vasa almennings. Þetta er tilraun til að ganga á sparnað almennings, sparnað sem liggur í lífeyrissjóðum, verðbréfasjóðum sem eru í eigu landsmanna, þ.e. ríkið ætlar sér að seilast í vasa lífeyrissjóðanna, vasa almennings, sparnað hans, til að greiða ekki skuldir sínar og standa ekki við skuldbindingar sínar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lífeyrissjóðirnir verða fyrir eignaupptöku. Þeir urðu fyrir stórkostlegu tapi í hruninu. Með lækkun þessara bréfa á markaði er nú þegar raunverulega orðin ákveðin eignaupptaka vegna ákvörðunar ráðherrans að fara í viðræður. Þessi bréf hafa gengið kaupum og sölum undir formerkjum þess að hér sé um ríkisábyrgð að ræða. Þessa ríkisábyrgð er kveðið á um í skilmálum bréfsins. Það er fjallað um þetta í lögfræðiáliti sem var sent til fjármálaráðherra nú í september. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Í skilmálum skuldabréfaútgáfunnar er gert ráð fyrir því að ekki sé unnt að greiða skuldina hraðar eða með öðrum hætti en um var samið. Íslenska ríkið gæti ekki sem ábyrgðarmaður leysts undan skuldbindingu sinni með einhliða greiðslu eða með því að bjóða skipti á annars konar bréfum. Kröfuhafi gæti hafnað slíkum efndum á kröfunni.“

En hvað ætlar fjármálaráðherra að gera? Jú, hann ætlar að slíta sjóðnum, keyra hann í þrot. Þá knýr hann fram uppgjör. Hann getur haldið því fram að hann geti keyrt ÍL-sjóð í þrot en hlutur ríkisins getur ekki orðið gjaldþrota. Það er bara ekki þannig. Það getur ekki heldur orðið greiðsluþrot hjá hluta ríkisins. Það er ríkissjóður sem stendur á bak við þetta.

Það kemur fram á bls. 11 í ágætri skýrslu sem lögð var fram og hér er til umræðu, með leyfi forseta:

„Með lögum um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs er fjármála- og efnahagsráðherra falin yfirstjórn sjóðsins og umsjón með úrvinnslu þeirra eigna og skulda sem fóru til ÍL-sjóðs við uppskiptingu Íbúðalánasjóðs.“

Ráðherra hefur yfirstjórnina á þessum sjóði en svo vill hann láta líta svo út að það sé einhvers konar takmörkuð ábyrgð á stofnuninni og bréfunum. Ég veit að þetta er einföld ábyrgð en fjármálamarkaðir hafa litið á það að íslenska ríkið ætli að standa við skuldbindingar sínar allan greiðslutíma skuldabréfanna, allan líftíma skuldabréfanna. Út á það gengur málið. Hann hefur ekki heimild til að stytta líftíma þessara skuldabréfa. Það er eignaupptaka. Þar er raunverulega verið að skerða eignarréttindi fólks og þeirra aðila sem eiga þessi skuldabréf.

Það að ætla að reyna að fara að gera þetta með þeim hætti að ekki sé staðið við skuldbindingar ríkisins samkvæmt ábyrgðinni — og hæstv. ráðherra sagði áðan að hann vildi láta skilmála ábyrgðarinnar gilda. Ábyrgðin er þessi: Það á að láta hana gilda allan líftímann. Það stendur í skilmálunum. Hluti af skilmálunum er líftími þessara ábyrgða. Það er nú bara þannig. Hæstv. fjármálaráðherra vill stytta þennan líftíma. Það er brot á skilmálunum, skýrt brot á skilmálunum. Og að halda því fram að á endanum komi ríkissjóður betur út er einfaldlega ekki rétt. Lánsmatsstofnanir munu meta orð og skuldbindingar ríkisins með þeim hætti að það verður dýrara fyrir ríkið að taka lán. Ábyrgðir ríkissjóðs verða ekki metnar að verðleikum eins og ber að gera raunverulega. Þetta mun hafa gríðarleg áhrif á markaðinn og þetta hefur þegar haft áhrif til lækkunar á sölu og verði þessara skuldabréfa á markaði. Það er tjón fyrir alla handhafa þessara skuldabréfa, svo að það sé sagt.

Ég tel, svo að ég tali nú um lausnir hérna líka, að eina lausnin í þessu máli sé að íslenska ríkið og Alþingi lýsi því yfir að ríkið standi við skuldbindingar sínar gagnvart lífeyrissjóðunum, gagnvart kröfuhöfunum, og fari í aðgerðir til að taka fé til hliðar til að tryggja að það standi við skuldbindingar samkvæmt þessum skuldabréfum. Þá erum við að tala um að á hverju ári í fjárlögum leggi íslenski ríkissjóðurinn til hliðar 10–15 milljarða til að tryggja það og lýsa því yfir að staðið verði við þessar skuldbindingar samkvæmt skuldabréfunum. Það er eina lausnin. Það er það eina sem hægt er að gera í þessu máli og hið eina rétta. Það er þar sem hagsmunir íslenska ríkisins liggja og hafa legið frá sjálfstæði, allan lýðveldistímann og frá 1918, það er að íslenska ríkið stendur ávallt við skuldbindingar sínar. Það gerði það í hruninu og á að gera það til framtíðar. Þá myndi íslenskur ríkissjóður sýna styrkleika og það myndi leiða til lægri vaxta fyrir ríkið til framtíðar og lægri vaxta á öllum skuldum ríkissjóðs og líka á skuldum sem bera ábyrgð ríkissjóðs, hvort sem það er einföld ríkisábyrgð eða tvöföld ríkisábyrgð eða ekki, þ.e. einföld eða raunverulega samábyrgð eða sjálfskuldarábyrgð. Ég þekki muninn á þessu tvennu. Hann er mjög einfaldur.

Það breytir því ekki að handhafar bréfanna keyptu þessi bréf 2004 til ákveðins tíma og þann líftíma ber íslenska ríkinu að virða undir öllum kringumstæðum. Við getum ekki keyrt þennan sjóð í þrot eða krafist slita á honum innan þessa líftíma. Skuldabréfin halda áfram og með því að fara í uppgjör núna á þessum skuldabréfum, þó svo að það spari ríkissjóði einhverja milljarða, er íslenska ríkið ekki að standa við skuldbindingar sínar. Ég veit að þetta mun kosta milljarða á milljarða ofan enn svona er nú lífið og þetta er einn af draugum fortíðar frá því fyrir hrun og sýnir — ja, ég veit ekki hvaða orð ég á að nota yfir það, þetta sýnir bara ótrúlegt fúsk og ótrúlega vanhæfni og ástandið sem var árið 2004. Ég man þennan tíma vel. Sjálfur flutti ég nú úr landi 2011 og hélt að ég myndi ekki þurfa að fjalla um tímann fyrir hrun aftur en við erum enn þá að tala um hann greinilega hér. Mitt innlegg og míns flokks í þessa umræðu er sú að íslenska ríkið standi við skuldbindingar sínar og hefjist nú þegar handa og geri áætlun um það að taka fé til hliðar svo að staðið verði við greiðslu af þessum skuldabréfum, ÍL-sjóður standi við skuldbindingar sínar og að þessi einfalda ábyrgð ríkissjóðs verði virt með þeim skilmálum sem lagt var upp með í upphafi við útgáfu bréfanna. Annað mun leiða til tjóns fyrir íslenskan ríkissjóð til lengri tíma. Það væri alger skammsýni að reyna eitthvað annað.

Það er sjálfsagt að ræða við kröfuhafa lífeyrissjóðanna um þetta mál en að knýja ÍL-sjóð með lagasetningu í þrot eða til slita sem myndi skaða lífeyrissjóðina sem þegar hafa reiknað lífeyrisréttindi síns fólks, reiknað fjárhæð þeirra út frá þessari eign sem er verðmæti þessara bréfa, myndi stórskaða lífeyrisréttindi fólks. Það myndi stórskaða þau réttindi ef íslenska ríkið myndi núna reyna að stytta sér leið í þessu máli og ætla að greiða minna en samkvæmt skuldabréfunum. Þessar greiðslur lágu fyrir 2004. Þetta lá alltaf fyrir. Þetta voru fastir vextir til ákveðins tíma og að halda því fram núna að þetta sé að dúkka upp skyndilega, það er einfaldlega ekki rétt.

Það sem hins vegar er rétt er að við höfum lifað óvenjulega tíma í vaxtamálum, mjög óvenjulega tíma. Það sem við erum raunverulega að bíta úr nálinni með er að skilmálarnir á sínum tíma voru ekki réttir. Það hefur leitt til þess að við erum föst í 3,75% vöxtum með þessi skuldabréf meðan vextir voru nálægt 0% og lægri en það. Við erum hins vegar mjög líklega að fara inn í hávaxtatíma — ekki hávaxtatíma en vextir munu hækka í heiminum. Það er eiginlega alveg augljóst mál. Greiningardeildir erlendis hafa sagt fólki sem ég þekki að það sé alveg augljóst að ástæðan fyrir lágri verðbólgu undanfarna áratugi, tvo áratugi a.m.k., hefur verið sú að Kína hefur verið að framleiða ódýrar vörur sem hefur haldið verðbólgunni niðri. Það mun ekki halda áfram í efnahagslífi heimsins. Það mun ekki gerast. Við munum fara í hávaxtatíma og það mun verða aukin verðbólga sem við þurfum að halda niðri með háum vöxtum. Þá líta þessi bréf að vissu leyti betur út síðar. En það er ekki atriði sem við eigum að velta fyrir okkur. Við eigum að standa við skuldbindingar okkar og íslenska ríkið. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra beri gæfu til þess að standa við það að þessi einfalda ríkisábyrgð á skuldabréfum haldi.