Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[17:58]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að ég hafi ágætlega farið yfir það í minni ræðu, eins og hv. þingmaður nefndi og eyddi ágætistíma í að fara yfir mína söguskýringu, að það eru einmitt aðrir aðilar sem bera kannski hvað mesta ábyrgð. Við vitum sem hér erum að það er auðvitað löggjafinn, Alþingi Íslendinga, sem setur lögin og regluverkið í kringum þetta allt saman. Ég fór einnig yfir það að ég held að fáir hafi kannski gert sér grein fyrir því sem kom svo í kjölfarið, að bankarnir myndu koma inn með þeim krafti sem þeir gerðu og töldu jafnvel sjálfir ekki skynsamlegt, sem leiddi svo til þess vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag, þ.e. að lántakendur gátu greitt upp sín lán hjá Íbúðalánasjóði og gerðu það. Íbúðalánasjóður var kannski ekki með sömu spil á hendi og gat ekki gert upp sín lán. Þetta er að mínu mati vandinn í hnotskurn.