Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[18:00]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú einmitt líka þannig með bankana að þeir störfuðu eftir þeim ramma sem var markaður hér á Alþingi og þeirri stjórnarstefnu sem fylgt var á þessum tíma. En ég gleðst yfir því að hv. þingmaður viðurkenni, um leið og hann telur stjórnendur Íbúðalánasjóðs ekki sérstaklega ábyrga fyrir þessum mistökum, að stjórnmálamenn hafi kannski farið illa að ráði sínu. Auðvitað má vera að bankarnir eigi sinn þátt í því líka. En það er nú samt þannig að Íbúðalánasjóður hefði að öllum líkindum lent í talsverðum vanda, jafnvel þótt bankarnir hefðu ekki gengið nándar nærri jafn hart fram og þeir gerðu í samkeppni við Íbúðalánasjóð. Uppgreiðsluáhættan var slík. Þetta er rakið ofboðslega vel í rannsóknarskýrslunni um fall Íbúðalánasjóðs. Einmitt þess vegna varaði Seðlabankinn við. Mér finnst þetta ofboðslega gott dæmi um mikilvægi þess að fylgja ekki einhverjum flokkspólitískum línum í blindni og gera ekki bara hvað sem er til að viðhalda völdum og stjórnarsamstarfi. Það er einmitt athyglisvert við tilvitnunina í Geir Haarde sem ég fór yfir hérna áðan að hann viðurkennir í skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið að hafa gert sér fyllilega grein fyrir hvað þetta var allt saman glannalegt, en það væri bara hluti af hinum pólitíska veruleika að stundum þyrfti að gera eitthvað glannalegt til að viðhalda stjórnarsamstarfi. Ég held að við ættum að láta okkur þetta svolítið að kenningu verða, að láta ekki eftirsókn eftir stólum og völdum leiða okkur í gönur; hlusta á þá sem hafa sérfræðiþekkingu og þá sem vara við glannaskap.