Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[18:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Tölurnar í bókhaldi ríkissjóðs skipta auðvitað máli því að þær segja okkur eitthvað um stöðu ríkissjóðs. Ég tel skipta máli að ríkissjóður sé notaður til að reka hér öflugt velferðarsamfélag. Það er það sem ég vil gera. Til þess að það sé hægt þarf auðvitað stundum að fara í mínus vegna þess að það eru atriði sem þarf að framkvæma og fjármagna. En ég held að ríkissjóður eigi nú ekkert að fara í einhvern gríðarlega mikinn plús því að það kannski bendir til að við séum ekki að sinna þeim verkefnum nægjanlega vel sem við ættum að vera að sinna.

Varðandi verðtrygginguna þá tel ég að hún hafi nú reynst okkur sumum bara alveg ágætlega með okkar húsnæðislán. En það gildir ekkert um alla. Á móti kemur að það eru líka ókostir við óverðtryggðu lánin. Því hefur fólk svo sannarlega líka fengið að finna fyrir þegar vextir hækka.

Mér finnst við stundum ræða of mikið um annaðhvort óverðtryggð eða ekki óverðtryggð lán á meðan mér finnst í raun að spurningin eigi að snúast um að skapa hér samfélag þar sem fólk getur komið sér upp húsnæði og haft öruggt húsnæði, hvort sem það vill vera í eignarhúsnæði eða leiguhúsnæði, en ekki alltaf að rífast bara um óverðtryggt eða verðtryggt.