Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[18:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta vandamál sem við glímum við hérna er afrakstur af einhverju bixi við að reyna að koma upp einhvers konar húsnæðisfyrirkomulagi eða rífa niður eitt húsnæðisfyrirkomulag til að reyna að koma öðru á. Þetta er alger blanda af allsherjarveseni.

Það er svo merkilegt með þessi óverðtryggðu lán með breytilegum vöxtum, eins og hv. þingmaður talaði um hérna, að fólk lendir í vandamálum þegar vextirnir breytast. Það er ekkert öðruvísi heldur en verðtryggt lán á föstum vöxtum, bara ekki neitt. Þar er það verðbólgan sem breytir heildarvöxtunum en þarna er allt í einu komin aukaákvörðun einhvers staðar inni í banka um að breyta þessum vöxtum á óverðtryggðum lánum, sem er í rauninni ekkert annað en að það er verið að elta verðbólgu á aðeins ógagnsærri hátt þegar allt kemur til alls. Ég sé engan mun þar á. Þessi lán með breytilegum vöxtum eru líka hörmuleg þótt þau séu óverðtryggð. Það er ekki nóg að horfa bara á það hvort lán sé verðtryggt eða óverðtryggt heldur hverjir vextirnir eru í alvörunni og hver stöðugleikinn og fyrirsjáanleikinn með þeim er.

Ég hef alla vega upplifað það bara á þessum sex árum sem ég hef verið hérna að það eru rosalega mörg mál sem standa bara óleyst enn þá, mjög mörg mál sem hafa verið í samfélagsumræðunni í langan tíma og við höfum einhvern veginn ekki borið gæfu til þess að geta einfaldlega bara talað okkur niður á lausn af því að einhvern veginn hefur ekki einu sinni verið í boði að ræða um það af alvöru. Kannski er hérna í ræðustól Alþingis verið að tuða um eitt og annað en það fer aldrei fram umræða um hvernig við getum sest niður og lagað þetta. Það vantar.