Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Rannsókn á Samherjamálinu og orðspor Íslands.

[11:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það kom kannski ekkert sérstaklega á óvart að ráðherrann reyndi að snúa sig út úr þessari umræðu með því að segja að hann ætlaði ekki að tjá sig um mál sem væri til rannsóknar, þó að hér séum við ekki að tala um rannsóknina sjálfa heldur t.d. þá orðsporsáhættu sem felst í þeim fréttum sem leiddu til rannsóknarinnar. Svo vekur þetta auðvitað athygli á því að ráðherrann velur sér þetta skjól af mikilli hentisemi. Það eru ekki nema kannski sex vikur síðan ráðherra notaði meinta fyrirhugaða hryðjuverkaárás sem skjól fyrir umræðu um að það ætti að búa lögreglu forvirkum rannsóknarheimildum og rafbyssum, þótt málið væri enn til rannsóknar. Þá var ráðherrann alveg til í að gapa framan í fjölmiðla um mál sem var til rannsóknar og nota það til að koma sinni pólitísku agendu áfram.

Þetta snýst náttúrlega um pólitík, forseti. Þetta snýst um að það er ekki nóg með að Samherji hafi rekið skæruliðadeild sem ræðst á blaðamenn og nýtur fulltingis kerfis sem er löngu orðið samdauna auðmagninu, sem hefur verið sett upp af stjórnmálastétt sem er meðvirk auðvaldinu, nei, þessi skæruliðadeild teygir anga sína hingað inn í þingsali, eins og við urðum svo áþreifanlega vör við þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók að sér hlutverk skæruliða Samherja og setti lok á könnun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á hæfi þáverandi sjávarútvegsráðherra í tengslum við Samherja, ráðherra sem fann tíma í dagskrá sinni til að mæta upp á skrifstofur Samherja og taka á móti namibískum ráðherrum til þess að auðvelda Samherja að svína á Namibíu. (Forseti hringir.) Þetta setti skæruliðadeild Sjálfstæðisflokksins lok á og naut til þess stuðnings hinna stjórnarflokkanna tveggja. (Forseti hringir.) Meðan svo er þá eigum við alltaf að tala um Samherjamálið í þessum sal.