Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Rannsókn á Samherjamálinu og orðspor Íslands.

[11:44]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ber fullt traust til embættis héraðssaksóknara varðandi rannsókn þessa máls en það þarf nægilegt fjármagn til að geta sinnt störfum sínum. Ég þekki það sjálfur sem fyrrverandi starfsmaður efnahagsbrotadeildar lögreglustjóra, fyrirrennara embættis héraðssaksóknara, að allir eru saklausir uns sekt er sönnuð og það er dómstóla að skera úr um það. Það er grundvöllur réttarríkisins og hornsteinn réttarríkisins. Það er rétt að ákæruvaldið er hornsteinn réttarríkisins en hornsteinn réttarríkisins og grundvöllur allra lýðræðisríkja er líka gagnsæið, að veita upplýsingar. Íslenska réttarríkið sætir alþjóðlegu eftirliti gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum sínum, m.a. eftirliti OECD, og þá gagnvart samningnum um aðgerðir gegn mútum til erlendra opinberra embættismanna í alþjóðlegum viðskiptum.

Ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra á síðasta þingi. Þar spurði ég: Hve lengi hefur málið verið til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara? Hefur aukið fjármagn verið veitt? Er skýrslutökum og gagnaöflun lokið í málinu? Hversu margar skýrslur voru? Er málið komið í ákærumeðferð? Svarið sem ég fékk var hlægilegt. Það hefði fengið algjöra falleinkunn hvar sem er í heiminum. Það fyrsta sem var sagt í svarinu var að ákæruvaldið sætti ekki pólitískum afskiptum. Ekkert af þessum spurningum fól í sér pólitísk afskipti. Þær fólu í sér beiðni um upplýsingar, beiðni um gagnsæi. Það er það sem almenningur á kröfu á alls staðar í heiminum nema kannski á Íslandi. Annað sem stóð í svarinu, sem var broslegt líka, var að ráðherra hefði ekki almenna heimild til að óska eftir upplýsingum. Þá er hann að fjalla um 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð sakamála. Ég les hér 1. mgr. 19. gr. (Forseti hringir.) laga um meðferð sakamála:

„Ráðherra hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds og getur krafist þess að ríkissaksóknari láti í té gögn og greinargerð um meðferð einstakra mála.“

Þetta er almenn heimild og ekkert annað. (Forseti hringir.) Dómsmálaráðherra getur haldið því fram að ekki sé til almenn heimild en þá á hann að lesa lögin, lesa 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð sakamála

(Forseti (DME): Ég minni hv. þingmann aftur á að virða ræðutímann.).