Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[12:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta andsvar. Ég var með nokkra punkta úr umræðunni á borðinu hjá mér og einn af þeim er einmitt: Lægri þröskuldar. Ef það hefur komið fram í umræðunni hérna á þingi punkta ég það niður og reyni að klóra mér aðeins í hausnum. Hvaða lægri þröskulda erum við með? Ég hef ekki hugmynd. Það hefur aldrei verið útskýrt á neinn hátt. Einhver slengir fram: Við erum með lægri þröskulda hérna en annars staðar. Við viljum hafa kerfin eins og í Noregi og Danmörku. Það á að vera meira samræmi í þessu. Ef við eigum að vera með allt eins og í Noregi og Danmörku eigum við þá ekki bara að fara í 20. fylki Noregs eða eitthvað svoleiðis? Mér finnst sú umræða alltaf svo pirrandi. Það er verið að velja eftir hentisemi hvenær við eigum að herma eftir öðrum og hvenær ekki. Við megum ekki vera eins og Evrópusambandið, ekki séns, en í þessum málaflokki þá megum við alveg endilega vera eins og Evrópusambandið. Og jú, jú, við veljum það sem er gott og höfnum því sem er slæmt, að sjálfsögðu. En ég sé ekki endilega að það séu nein rök á bak við það að þessi málaflokkur sé endilega í svo góðu standi, sérstaklega í Danmörku. Kannski eitthvað í Noregi. Umræðan þar hefur verið aðeins jákvæðari, held ég, en það eru samt atriði sem við þyrftum að passa upp á.

Í umræðunni um þetta höfum við verið að slengja fram: Við erum með lægri þröskulda. Þá er ég bara eitt stórt spurningarmerki og spyr: Hvaða þröskulda erum við með sem eru lægri? Ég sé enga útskýringu á því í frumvarpinu enda er því ekki haldið fram í greinargerð frumvarpsins að við séum með lægri þröskulda, ekki svo að ég hafi séð, á neinn beinan hátt. Það er kannski talað um það á einhvern óbeinan hátt. Það er talað um, með leyfi forseta:

„Veitingarhlutfall til ríkisborgara Venesúela er hátt bæði hér á landi og á Spáni en það vekur athygli hversu markvissir ríkisborgarar Venesúela eru í umsóknum sínum um vernd. (Forseti hringir.) Það liggur í augum uppi að þeir sem koma hingað til lands, flestir hverjir eftir millilendingu á Spáni, velja Ísland sérstaklega sem áfangastað til að sækja um vernd.“

Það er verið að ýja að þessum lægri þröskuldum en ég hef ekki hugmynd um af hverju, þ.e. lagalega séð.