Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[13:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða sem við eigum hérna í dag og ég þakka hæstv. málshefjanda fyrir hana sem og hæstv. ráðherra fyrir ræðuna hér. Ég hef fylgst með hinu hugrakka fólki í Íran, sérstaklega ungum konum en raunar bara fólki almennt sem fer út á göturnar með hugrekkið eitt að vopni til að berjast við öryggissveitir landsins fyrir sjálfsögðum mannréttindum, fyrir því að konur hafi réttindi í eigin landi. Mér finnst það mikilvægt sem Ísland hefur lagt áherslu á í sinni utanríkisstefnu og einnig sinni þróunarsamvinnustefnu sem er að tala fyrir réttindum kvenna á alþjóðavettvangi. Við eigum að halda því áfram og ég vil fagna því hvernig hæstv. ráðherra hefur haldið á málefnum kvenna og haldið málefnum kvenna í Íran á lofti á þeim sviðum þar sem hún hefur fengið orðið og getað tekið til máls. Ég fagna því að kvenleiðtogar heimsins hafi tekið sig saman og lyft málinu enn hærra upp. Það er hins vegar þannig að við náum ekki árangri í jafnréttismálum á alheimsvettvangi nema með því að karlar taki þátt í baráttunni. Þetta má ekki vera barátta kvenna einna. Það er hlutverk okkar allra að tryggja jafnrétti, hvort sem það er heima fyrir eða á heimsvísu. En að því sögðu vil ég hvetja hæstv. ráðherra áfram í sinni vinnu og okkur öll til að nýta alltaf þá málpípu sem við höfum sem þjóðkjörnir fulltrúar til þess að tala með almenningi í Íran sem er í hetjulegri baráttu við stjórnvöld.