Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[14:21]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur ítrekað minnt okkur á að væri réttast að kalla ógeðsfrumvarp. Ég held reyndar að ráðherrann meini það í háðungartón, en þetta er réttnefni. Þetta er réttnefni vegna ýmissa atriða sem í því eru en líka vegna þess á hvaða forsendum þetta mál verður til. Tilgangurinn með þessu máli var upphaflega að geta gripið allt fólkið sem er að flýja ómannúðlegar aðstæður í flóttamannabúðum suður á Grikklandi og endursent það umsvifalaust til baka í þær ómannúðlegar aðstæður. Þótt það tiltekna ákvæði sé horfið úr frumvarpinu núna standa eftir ótalmörg önnur sem við hljótum öll að gera athugasemd við.

Þó að ráðherrann hafi náð þeim meginboðskap að málið sé ógeðslegt þá virðist hann misskilja ýmislegt annað sem sagt hefur verið um það. Til dæmis stendur hann í þeirri trú, misskilningi, að andstæðingar frumvarpsins haldi því fram að það muni engin áhrif hafa þegar hið rétta er að hér hefur ítrekað verið sagt að þetta mál muni ekki leysa þann vanda sem steðjar að verndarkerfinu á Íslandi, og varla að það muni leysa nokkurn einasta vanda. Miklu líklegra er að það muni draga úr skilvirkni kerfisins. Það sem t.d. móttaka flóttafólks frá Úkraínu sýndi okkur er að það þarf ekki einu sinni að gera lagabreytingar til að auka skilvirkni. Það þarf bara að ákveða að gera hlutina betur og þá er hægt að auka skilvirknina og mannúðina til muna. Vandinn við kerfið er nefnilega ekki löggjöfin nema að litlu leyti. Stóri vandinn er framkvæmdin sem við eigum allt of mörg dæmi um að sé mannfjandsamleg. Hún skapar þar að auki miklar tafir og tregðu í kerfinu. Við höfum nokkrum sinnum rætt í þessum sal að það sem er dýrast í íslenska verndarkerfinu er kannski hvað stjórnvöld vinna mikið að því að finna einhverja afsökun til að synja umsóknum fólks um alþjóðlega vernd. Það væri miklu ódýrara að segja já fyrr og við fleiri og leyfa því fólki að verða hluti af samfélaginu miklu fyrr.

Eins og ég sagði er upphaflegur tilgangur frumvarpsins farinn út, sem var breyting sem átti að gera á 36. gr. laganna varðandi umsækjendur sem komu til landsins eftir að hafa hlotið virka, alþjóðlega vernd í öðru landi. Staðalmynd af þessum stóra hóp er kannski flóttafólk frá Sýrlandi sem var búið að kúldrast í svokallaðri vernd á Grikklandi árum saman, flúði það ástand og rataði til Íslands og sótti um vernd, ekki bara frá stríðinu í Sýrlandi heldur líka frá ómannúðlegum aðstæðum á Grikklandi, aðstæðum sem Íslandi, sem þátttakanda í Schengen-samstarfinu, ber í raun skylda til að liðsinna grískum stjórnvöldum að vinna gegn. Hvernig gerum við það? Ekki með því að endursenda fólk til Grikklands heldur með því að taka því opnum örmum, bjóða þeim einstaklingum þannig betra líf á Íslandi og létta undir með grískum stjórnvöldum og grísku samfélagi.

Það vekur dálitlar áhyggjur hjá mér að sá stjórnarflokkur sem erfiðast hefur átt með þetta frumvarp í fyrri útgáfum, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, skuli að manni sýnist hafa látið þessa einu breytingu duga til þess að afgreiða málið fyrirvaralaust út úr þingflokknum. Þau tala hér um að það eigi að sjálfsögðu að fá þinglega meðferð — þó það nú væri — og geti mögulega tekið einhverjum breytingum í þeirri meðferð. Hér áður gerði flokkurinn formlega fyrirvara við ákveðin efnisatriði eða við málið almennt, sem er skýrt merki um að flokkurinn styðji framgang málsins ekki óbreytt. Án fyrirvara hljótum við að ganga út frá því að restin af málinu hafi flokknum bara þótt í lagi. Það er dálítið slæmt vegna þess að breytingarnar sem gerðar eru í þessu frumvarpi eru dálítið lúmskar. Það þarf að þekkja lagabókstafinn dálítið vel, lúslesa og samlesa hluti, eða bara lesa umsagnir Rauða krossins sem hafa komið inn við hvert einasta tilefni þar sem allt er útlistað sem athugavert er í þessu máli. Ekkert af þessu virðist þingflokkur Vinstri grænna hafa gert. Hefði flokkurinn gert það hefði hann aldrei samþykkt þetta mál úr þingflokki til þinglegrar meðferðar án einhvers konar fyrirvara. Þessi breyting sem er búið að fella brott varðandi sjálfvirka endursendingu fólks sem hefur hlotið alþjóðlega vernd í öðru landi er t.d. gott dæmi um hversu lúmskir frumvarpshöfundar eru að láta það ekki hrópa á lesendur hvað er verið að gera. Þar stóð, með leyfi forseta:

„Ef svo stendur á sem greinir í b-, c- og d-lið 1. mgr. skal þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því.“

Það vonda við þessa setningu er ekki hvað stendur í henni heldur einmitt hvað stendur ekki í henni. Þarna eru tilteknir b-, c- og d-liðir en ekki a-liður sem varðar fólkið sem er að flýja gríska, ungverska eða ítalska verndarkerfið. Það er mjög auðvelt að missa af þessu ef maður þekkir ekki lagatextann eða sleppir því að lesa umsagnir. Þetta sá þingflokkur Vinstri grænna á sínum tíma og áttaði sig á að þyrfti að gera mikla athugasemd við en virðist ekki hafa dýpri þekkingu á málinu en svo að halda að restin sé bara í lagi þegar þetta er farið.

Mig langar að taka annað dæmi um lúmska breytingu í frumvarpinu sem hlýtur að hafa farið fram hjá þingflokknum þótt á hana hafi verið bent í fyrri umfjöllun málsins. Það er 15. gr. frumvarpsins þar sem verið er að loka á ákveðna tegund fjölskyldusameiningar. Það er gert með því að setja orðin „á öðrum grundvelli en í boði stjórnvalda skv. 43. gr.“ inn í a-lið 4. mgr. 70. gr. laganna. Við þurfum alltaf að fletta fram og aftur á milli laganna, frumvarpsins og greinargerðar til að átta okkur á því hvað þetta þýðir. Tímans vegna held ég kannski að sé einfaldast að ég segi á mannamáli hvað þetta þýðir. Þetta þýðir að kvótaflóttafólk, fólk sem íslensk stjórnvöld hafa handvalið í gegnum Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna til að koma til Íslands, mun ekki eiga rétt á fjölskyldusameiningu ef, eins og það er stundum orðað hálfóvirðulega, allt í einu dúkkar upp eiginmaður sem ekki hafði verið vitað af áður.

Þetta skiptir máli vegna þess að kvótaflóttafólkið sem Ísland hefur gjarnan tekið á móti eru einstæðar mæður í hættu, konur sem hafa kannski misst eiginmenn í stríðsátökum eða vegna ofsókna og hafa síðan stokkið á flótta í framhaldinu. Frumvarpshöfundum þykir eðlilegt að við val á þeim hóp sem er boðið að koma til Íslands megi ekki breyta neinum forsendum þess hóps þegar hann er kominn til landsins. En hvað þýðir þetta í reynd? Segjum að hingað komi kólumbísk flóttakona sem kemur hingað sem kvótaflóttamaður og telur sig vera ekkju með tvö ung börn, hún sest hér að og er kannski búin að búa hér í nokkur ár. Þá kemur allt í einu í ljós að maðurinn, sem rænt var af heimili sínu nokkrum árum áður og löngu talinn af, talið var að hann hefði verið myrtur, er á lífi. Hann slapp úr haldi og er allt í einu lifnaður við. Þetta gerist ótal sinnum í stríðsátökum í löndum þar sem vargöld ríkir. Þá er bara mjög algengt að fólk haldi að það hafi misst maka sinn árum saman þangað til það kemur í ljós að viðkomandi var kannski bara í haldi og lifandi — pyndaður en lifandi.

Þessi maður fær ekki að koma til Íslands á grundvelli fjölskyldusameiningar ef þessi grein verður að lögum. En það stendur hvergi í frumvarpinu eða greinargerð að þetta verði nákvæmlega áhrifin heldur þarf dálítið dýpri skilning á málinu til að átta sig á því. Þessi grein er kannski eitt af dæmunum sem er hægt að draga úr þessu máli til að sýna að þessi aukni stuðningur Vinstri grænna við málið, meiri en við þekkjum frá fyrri framlagningum, byggir mögulega á alveg ofboðslega grunnum lestri á málinu.

Hvað er síðan fleira verið er að gera í þessu máli sem verður til þess að við köllum það ógeðslegt? Tökum t.d. ákvæðið um að það eigi að lögfesta framkvæmd sem búið er að dæma ólöglega. Stjórnvöld komust sem sagt ekki upp með það að henda flóttafólki á götuna og svipta það allri þjónustu og voru gerð afturreka með það fyrir dómstólum. Frekar en að bæta ráð sitt og koma almennilega fram við fólk á að skjóta lagastoð undir það að geta svipt fólk í sinni mestu neyð öllu því litla sem ríkið veitir því 30 dögum eftir að umsókn þeirra hefur verið afgreidd. Þetta er ógeðslegt, frú forseti, sérstaklega í ljósi þess að akkúrat þessa dagana er hópur fólks að reka mál fyrir dómstólum hliðstæð því máli sem íslenska ríkið tapaði hér fyrir stuttu. Verið er að reyna að vísa því fólki á brott. Það er með mál fyrir dómstólum sem allar líkur eru á að munu vinnast en það er verið að vísa þeim á brott. En af hverju er það hægt? Það er vegna breytingar sem var troðið inn fyrir nokkrum árum varðandi það að kæra fresti ekki réttaráhrifum í svona málum. Það að einstaklingur kæri neikvæða niðurstöðu Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála hefur ekki þau áhrif að framkvæmd brottvísunar frestist. Það má sem sagt henda þessum mönnum úr landi þó að allar líkur séu á því að dómstólar segi að það megi ekki. Þá er „trikkið“ hjá stjórnvöldum að gera það nógu fljótt til að viðkomandi verði kominn úr landi áður en niðurstaða dómstóla liggur fyrir því þá eru engar líkur á að hann komist hingað aftur. Það að kæra fresti ekki réttaráhrifum brottvísunar er hins vegar ekki algild regla heldur er undanþáguheimild í lögunum. Þetta er svo gott dæmi um að lögin séu ekki endilega vandamálið heldur framkvæmdin vegna þess að kærunefnd útlendingamála getur ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. En gerist það? Varla.

Fyrr í vikunni fékk ég svar við fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um það hversu oft kærunefnd útlendingamála hefði borist krafa um frestun réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið og hverjar lyktir málanna hefðu verið. Frá árinu 2016 til 1. september þessa árs hafa borist 1.057 beiðnir þess efnis. Í 31 tilviki var réttaráhrifum frestað — 31 sinni. Það er 2,9% hlutfall. Ég reikna ekki með að aumingja palestínsku flóttamennirnir sem var hent út á götuna um miðjan vetur muni lenda inni í þeirri prósentu (Forseti hringir.) vegna þess að þeim á að koma úr landi sem fyrst. Þetta frumvarp sýnir það líka.