Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

breytingar á raforkulögum til að tryggja raforkuöryggi almennings o.fl.

89. mál
[15:26]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann talaði um að við ættum endalaust af íslenskri grænni orku, raforku. (Gripið fram í.) — Var það ekki endalaus eftirspurn eftir íslenskri grænni orku? (OPJ: … eftirspurn.) Já, fyrirgefðu, það væri endalaus eftirspurn eftir íslenskri grænni orku.

Með sölu á upprunaábyrgðunum, 87% af upprunaábyrgðunum, þá er 87% af orkunni ekki græn orka. Hún er framleidd úr jarðefnaeldsneyti, 57%, og 29% úr kjarnorku. Ég veit að Íslendingar virðast ekki enn hafa keypt þessa hugmynd hvernig staðan er varðandi uppruna íslenskrar orku, en á Íslandi er eftirspurnin ekki eftir íslenskri orku. Fyrirtækin koma hingað út af verðinu. Þau geta ekki sagt, nema þau kaupi þá upprunavottorð, að það sé græn orka. Málið er bara það — og það er gott að heyra hv. þingmann segja að það sé ljóður á þessari upprunasölu, ég geng svo langt að segja að það sé svartur blettur á íslensku efnahagslífi eða íslensku samfélagi — að við skulum vera að selja þessi upprunavottorð og við erum að hjálpa Evrópubúum að menga. Það er okkar framlag til orkuskipta. Ég get ekki séð það öðruvísi vegna þess að Ísland er ekki tengt inn á kerfið. Fyrirtækin úti í heimi eru sannarlega framleiða raforku með kolum, rafmagni og kjarnorku en þau kaupa vottorðin til að blekkja fólk og þetta er svindl. Ég myndi telja að þetta standist aldrei nokkurn tímann fyrir dómstólum. Það yrði alla vega mjög illa tengdur dómari sem myndi samþykkja það.

En mín spurning er þessi: Samþykkir hann það að þessi endalausa eftirspurn eftir íslenskri orku sé raunverulega bara eftirspurn eftir íslenskri orku og það sé verðið sem skiptir máli (Forseti hringir.) og við getum þakkað að það sé ekki sæstrengur sem tengir Ísland við meginlandið?