Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

velferð dýra.

53. mál
[16:18]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Þegar ég flutti málið á 152. löggjafarþingi var ég í sambandi við fulltrúa Íslandsstofu sem voru í rauninni að eyða stórfé í markaðssetningu á íslenska hestinum. Þar var mér tjáð að mikið hefði verið haft samband við þá frá erlendum aðilum, ferðaskrifstofum og fleirum, og verið að afboða ferðir þar sem fólk vildi ekki koma hingað lengur. Það braust út mikil reiði hjá aðilum sem voru aðallega að versla með íslenska hestinn. Það kom þeim algjörlega í opna skjöldu að þetta væri raunveruleg meðferð á íslenskum fylfullum hryssum. Tölulega séð kom það líka fram, eins og Íslandsstofa gaf upp, að aldrei hefðu selst fleiri hross heldur en 2021. Sala á íslenska hestinum hefði í raun og veru vaxið ár frá ári. En þarna var kominn uggur og ótti um að við værum jafnvel að skáka því, þar sem markaðssetningin hafði átt sér stað í sex heil ár og þau vildu meina að hún væri farin að skila virkilegum árangri og jákvæðni. Hvort þetta hafi farið niður akkúrat á þessu ári þá liggja þær tölur ekki fyrir og það er ekki það sem ég veit. Hins vegar var uggur um að þetta myndi hafa skaðleg áhrif á ásýnd út á við.

Hvað lýtur að banninu þá þurfum við náttúrlega ekki að banna það sem ekki er stundað og stóri liðurinn þar inni er það sem Evrópuþingið er að leggja til, þ.e. að hvergi sé keypt PMSG, sem þýðir einfaldlega að Evrópusambandið er að fordæma þetta. Ég lít þannig á það að ekki þurfi að banna það sem ekki er stundað.