Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

velferð dýra.

53. mál
[16:28]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það sem ég var að benda á hér áðan er það að dýraníð er ekki afstætt, siðferði er ekki afstætt. Það er ekki háð því hvort það seljist fleiri eða færri hross út úr landinu. Það er ekki þannig. Allir þeir sem eru fylgjendur áframhaldandi bóðmerahalds eiga hagsmuna að gæta í málinu. Það er bara þannig. Iðnaðurinn vill að sjálfsögðu fá að halda áfram og fólk vill hafa tekjur af blóðmerahaldi. Flokkur fólksins lagði sérstaklega fram við fjárlög á síðasta þingi að bæta þeim það tjón. Það er því líka verið að hugsa um það í þessu máli að bæta þeim tekjumissi vegna þess.

Varðandi ímynd íslenskra hestsins: Að sjálfsögðu skaðar blóðmerahald ímynd íslenska hestsins. Íslandsstofa hefur verið að markaðssetja íslenska hestinn úti í heimi á undanförnum árum og blóðmerahaldið skaðar ímyndina. Það getur vel verið að þetta hafi ekki fækkað útfluttum hrossum til sölu á einu ári en það getur vel verið að það gerist í framtíðinni. (IngS: Kannski hefðu þau orðið fleiri.) — Já, þess vegna. Málið er bara að þetta er svartur blettur á ímynd íslenska hestsins, klárlega, af því að þetta er dýraníð. Að þjóðríki sé að selja hrossin sín, sem þjóðin er svo stolt af og hafa ákveðinn sess í þjóðarvitundinni og meira að segja líka úti í heimi, að við séum að taka vaxtarhormón úr fylfullum merum til að selja í svín úti í heimi, það er ekki ásættanlegt, bara engan veginn ásættanlegt. Það er dýraníð. Allir dýraverndarsinnar eru sammála þessu. Það eru bara þeir sem eru að stunda þetta og eiga hagsmuna að gæta sem eru það ekki. Það er hinn órjúfanlegi sannleikur málsins.