153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

greiðsla skulda ÍL-sjóðs.

[15:32]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að heyra svör við einföldum spurningum, að félags- og vinnumarkaðsráðherra svari því hver afstaða hans er og hver afstaða Vinstri grænna er, hvort hann ætli að samþykkja þetta upplegg. Það er auðvitað fráleitt að tala um samningaviðræður sem eiga sér stað í aðdraganda hótana frá ríkisstjórninni um lagasetningu. Í hvaða stöðu eru menn við það samningaborð? Og það er heldur ekki rétt að tala um að þetta sé einn og sami aðilinn. Við erum að tala um lífeyrisþega og við erum að tala um launþega sem eiga að taka á sig byrðar ríkissjóðs. Þetta er ekki sami aðilinn. Það er nefnilega verið að teikna upp þá mynd að einföld saga sé flókin. Þetta er ekkert sérstaklega flókið. Ég vil fá svör við þessum spurningum: Er sanngjarnt að lífeyrisþegar og launþegar í landinu beri þennan kostnað, að gengið sé í sparnað almennings með þessum hætti, að ríkið geti breytt lánskjörum sér í hag þegar reikningurinn er farinn að líta illa út og að almenningur eigi að taka upp reikninginn fyrir pólitísk mistök stjórnvalda?