Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[16:23]
Horfa

Elín Anna Gísladóttir (V):

Virðulegur forseti. Aðeins meira um leikskólastigið. Það sem ég hef tekið eftir sem foreldri og sveitarstjórnarkona er að þessi breyting á leyfisbréfum hefur í það minnsta afhjúpað vanda leikskólanna. Svo virðist sem leikskólakennarar færi sig í grunnskóla en það flæðir ekkert til leikskólanna. Við þekkjum ansi mörg hverjar afleiðingarnar eru. Okkur berast sífelldar fréttir af vandamálum vegna manneklu á leikskólum, veikinda og kulnunar starfsfólks. Síðastliðinn fimmtudag sótti ég mitt eigið barn í leikskólanum vegna manneklu og mætti einmitt samstarfskonu minni í hurðinni sem þurfti líka að rjúka úr vinnunni til að sækja barn vegna manneklu. Fréttirnar sem við sjáum eru oftast úr Reykjavík en ég er í Mosfellsbæ og samstarfskona mín í Kópavogi. Áhrifin eru alls staðar. Þegar frumvarpið varð að lögum bentu þingmenn Viðreisnar á að það væri unnið hratt, allt of hratt. Málið væri gott en betra væri að vinna það nánar, t.d. hefði verið gott að greina kjarasamninga þessara stétta og starfsumhverfi, finna hvar núningsfletirnir væru og þekkja þá betur hvar vandamálin myndu birtast. Vel unnin innleiðing hefði einnig haft aðgerðaáætlun til þess að bregðast við vandamálum sem upp kæmu. En hverjir sitja uppi með úrlausn vandamálsins? Sveitarfélögin, ekki satt? Er þetta ekki enn eitt dæmið um mál þar sem úrlausnin lendir hjá sveitarfélögunum við breytingar sem ríkið gerir og ekkert fjármagn kemur frá ríkinu til að bregðast við þessu? Nú sitja sveitarfélögin í súpunni, þjónusta við yngstu börnin okkar versnar á sama tíma og við öðlumst meiri og meiri þekkingu á því hversu mikilvæg fyrstu árin í lífi barna okkar eru. Því spyr ég hæstv. mennta- og barnamálaráðherra: Hvað eiga sveitarfélögin að gera í þessari ómögulegu stöðu?