Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

jöfn tækifæri til afreka.

291. mál
[16:56]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og líka það innlegg sem hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson kom með hingað inn. Ég veit ekki hvort fyrirspurnin hefur borist þinginu en við höfum ekki lokið við afreksstefnu sem hv. þingmaður nefnir en erum að koma því starfi af stað af krafti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að það er tækifæri til að tengja það inn í stöðu þessa hóps gagnvart afreksíþróttastarfi.

Varðandi húsnæði og búningsklefa vil ég segja: Áskorunin er svolítið sú að það er ekki ríkið sem heldur úti þessari starfsemi heldur erum við að vinna með Landssamtökum ÍSÍ, UMFÍ og svo eru íþróttafélögin þar undir. Æskulýðssamtökin starfa síðan í sveitarfélögunum og eru oft að nýta húsnæði frá sveitarfélögunum eða reka það sjálf. Fjölbreytnin er því talsvert mikil.

Við höfum verið að ræða þetta vegna þess bakslags sem við sjáum í þessum málum og kannski í auknum mæli sérstaklega gagnvart ungu fólki, vil ég meina. Við höfum verið að leita leiða til að setja aukið fjármagn í það sem lýtur að þessum málum, bæði í samstarfi við Samtökin '78 en líka við fleiri aðila. Mig langar í því samhengi að nefna, sem ég hef talsverðar áhyggjur af, að mikið af þeim samtökum sem við erum að vinna með hafa eðli máls samkvæmt haft meiri slagkraft á höfuðborgarsvæðinu, eðli málsins samkvæmt. Höfuðstöðvarnar eru hér. Þetta eru samtök sem oft hafa ekki mikla fjárhagslega burði. Við höfum talsverðar áhyggjur af landsbyggðinni í þessu samhengi og erum að leita leiða til að setja af stað einhver verkefni þar sem við komum sérstaklega inn í landsbyggðarhéruð með áherslu á hinsegin börn, trans börn og fleiri og þátttöku í samfélaginu þar, (Forseti hringir.) hvort sem er í tónlist, íþróttum eða æskulýðsstarfi, eða bara að vera gott og gegnt ungmenni í sínu samfélagi. Þar held ég að áskoranirnar séu jafnvel fleiri en hér á höfuðborgarsvæðinu og við þurfum að fylgja því fast eftir.