Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

eftirlit með menntun, aðbúnaði og réttindum barna í skólum.

293. mál
[17:17]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tel skyldu mína að koma hér fram og fjalla um síðustu ummæli hæstv. mennta- og barnamálaráðherra um að grunnskólinn sé alfarið í höndum sveitarfélaganna. Ég vil minna á að það er sérstakur kafli í lögum um grunnskóla sem heitir Stjórnskipan grunnskóla og þar segir í 4. gr., um yfirstjórn, með leyfi forseta:

„Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra málefna sem lög þessi taka til, setur grunnskólum aðalnámskrá, leggur grunnskólum til námsgögn, hefur eftirlit með gæðum skólastarfs, annast öflun, greiningu og miðlun upplýsinga, styður þróunarstarf í skólum og hefur úrskurðarvald í ágreiningsmálum eftir því sem lög þessi kveða á um.“

Svo er fjallað eftirlitshlutverk ráðuneytisins í greininni á eftir. Það er alveg skýrt í þessum lögum að ráðherra fer með yfirstjórn málefna grunnskóla. Hann setur grunnskólum aðalnámskrá. Það er skylda miðstjórnarvaldsins að sinna þessu eftirliti og fara með stjórnskipanina. Það virðist vera að miðstjórnarvaldið og ráðherra hafi útvistað þessu til einhverra annarra afla í samfélaginu og ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt lögum um grunnskóla. Það er stóra vandamálið. (Forseti hringir.)

Það kemur líka fram í alþjóðlegum könnunum (Forseti hringir.) að lestrarhæfni íslenskra barna er fyrir neðan allar hellur og það er algerlega stjórnleysinu að kenna.

(Forseti (OH): Klukkan í borðinu er eitthvað að stríða okkur. En ég vil minna á það að liðurinn um fundarstjórn forseta á að fjalla um fundarstjórn forseta en á ekki að vera framlenging á máli sem er búið að ljúka.)