Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

tryggingavernd bænda.

359. mál
[18:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir þessa umræðu og svör ráðherra. Ég tek undir að það sé mjög gott að sækja þekkinguna þar sem hún er til staðar og tekist hefur vel. Þetta hefur aðeins verið í umræðunni um Náttúruhamfaratryggingar Íslands og Bjargráðasjóð, að hann verði sjóður sem nái kannski yfir mun víðtækara svið en hann gerir í dag. Ég er ánægð með þá stefnu.

Síðan langar mig að taka undir það sem hv. fyrirspyrjandi nefndi um þessi göt sem hafa orðið til undanfarið sem við rekum okkur á, umfram það sem kannski er vitað og er í skýrslunni. Bændur geta kannski komið meira inn í þetta samtal sem fram undan er. Við erum auðvitað að stefna að auknu matvælaöryggi og aukinni útirækt eins og hér hefur verið viðrað. Í því sambandi verðum við, af því að við búum í þannig landi, að ná utan um það svo bændur leggi í þá vinnu sem þar er undir því við vitum alveg að það gengur ekki að rækta mikið úti í alls kyns veðri og vindum ef ekki verður bætt þegar illa gengur.