Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

umfjöllun nefndar um brottvísanir hælisleitenda.

[14:13]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég vildi koma hingað upp sem nefndarmaður í allsherjar- og menntamálanefnd og nefna að það er mjög bagalegt að málinu skuli vera þannig fyrir komið í nefndinni að menn séu ekki sammála um hvert erindið hafi verið í upphafi. Almennt vil ég segja að þegar við erum með mál undir eins og núna er þá hlýtur það að vera keppikefli allra, ef á annað borð á að taka málið fyrir í nefndinni og kalla til gesti, að það sé gert eins fljótt og auðið er. Það hefði farið mun betur á því að hæstv. ráðherra og Útlendingastofnun hefðu verið á fundinum í morgun, a.m.k. Útlendingastofnun ef hæstv. ráðherra gat ekki mætt. Svo má líka nefna að það veitir ekkert af því að koma upplýsingum almennilega á framfæri því að það liggur alveg fyrir að þeir sem voru sendir úr landi í þessari umferð eru ekki að fara í flóttamannabúðir í Grikklandi heldur á götuna, þar sem þeir eru nú þegar komnir með vernd í Grikklandi. Þetta er eitt af þeim atriðum sem margítrekað hefur verið reynt að leiðrétta í umræðunni en virðist ganga illa að fá þingmenn til að meðtaka.