Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

umfjöllun nefndar um brottvísanir hælisleitenda.

[14:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir að hafa hringt í kunningja sinn í Aþenu til að fá á hreint að það væri bara allt í himnalagi þar. Ég treysti samt öðrum heimildum betur, eins og t.d. Rauða krossinum sem hefur gefið út býsna skýrar og gagnlegar skýrslur um að verndarkerfið á Grikklandi sé ónýtt, svo við tölum bara skýra íslensku, að það sé komið að svo miklum þanmörkum að það geti ekki uppfyllt grundvallarmannréttindi fólksins sem á að njóta verndar þess kerfis. Ef Birgir Þórarinsson og vinur hans eru ósammála því þá geta þeir átt það við Rauða krossinn frekar en að standa hér í einhverjum orðaskiptum við hv. þm. Sigmar Guðmundsson.

Ég ætlaði nú aðallega að tala um þessa afgreiðslu inni í allsherjar- og menntamálanefnd og minna forseta á að traust er alveg ofboðslega viðkvæmt í þingstörfum og þessi misnotkun formanns allsherjar- og menntamálanefndar á dagskrárvaldi sínu (Forseti hringir.) boðar ekki gott fyrir samstarfið fram undan.