Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

heimsþing kvenleiðtoga í Hörpu.

[14:47]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að halda áfram með það sem ég talaði um í minni fyrri ræðu, þ.e. að í síðustu viku var enginn þingfundur vegna þings Norðurlandaráðs í Helsinki. En það voru nefndastörf. Ég tók eftir því bara í morgun á fundi allsherjar- og menntamálanefndar að þá komu kvenþingmennirnir seint á fundinn vegna þess að þær voru á ráðstefnunni í Hörpu, sem var mjög gott að mínu mati, og það kom niður á nefndastörfum. Ég tel því að það eigi að vera ekki bara eins og í síðustu viku, þá var enginn þingfundur vegna Norðurlandaráðsþings, en þá voru nefndastörf, heldur ætti að fella líka niður nefndastörf og jafnvel enn frekar, þegar svona háttar. Þá geta þingkvenmenn farið á ráðstefnuna og svo er viðvera í þingsal með öðrum hætti, hún varðar einstök mál og þar er þátttaka undir hverjum þingmanni komin. Þannig að ég tel mjög mikilvægt að nefndastörf verði felld niður þegar svona háttar en ekki aðeins þingfundir eins og var gert í síðustu viku.