Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[15:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég þakka flutningsmanni fyrir þessa tillögu og þeim sem að henni standa. Ég tek heils hugar undir það sem hér kemur fram og styð að sjálfsögðu þessa tillögu. Eins og hv. þingmaður og framsögumaður, Njáll Trausti Friðbertsson, nefndi réttilega þá skiptir verulegu máli, og ekki síst á þeim tímum sem við lifum í dag, að við höfum góða þekkingu á öryggis- og varnarmálum. Ég held að flestar þjóðir sem láta sig þennan málaflokk varða hafi á að skipa svokölluðum hugveitum, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, og hér er einmitt lagt upp með að sett verði á laggirnar rannsóknasetur í öryggis- og varnarmálum sem er að sjálfsögðu afar mikilvægt og sérstaklega í því umhverfi sem við lifum í. Við horfum fram á gjörbreytta heimsmynd í Evrópu eftir innrás Rússa í Úkraínu og þeir atburðir hafa verið að færast nær okkur, við höfum séð það. Sérstaklega má nefna þann atburð þegar skemmdarverk var unnið á Nord Stream gasleiðslunni í Eystrasalti fyrir ekki svo löngu. Það vakti okkur til umhugsunar um okkar eigið öryggi þegar kemur t.d. að sæstrengjum.

Ég hafði tækifæri til þess fyrir skömmu, þegar ég var í Washington í Bandaríkjunum, að eiga fund með deildarstjóra öryggismála á norðurslóðum. Þar kom ég sérstaklega inn á öryggi sæstrengja og það var mjög fróðlegur og góður fundur, þar sem mikið var lagt upp úr því, og ég spurði sérstaklega um það, hvort Bandaríkjamenn væru búnir að gera áhættugreiningu á þessum lögnum eða þessum strengjum sem eru okkur gríðarlega mikilvægir. Ef þessir strengir yrðu t.d. fyrir skemmdum þá stöndum við frammi fyrir alvarlegum vanda. Ég held að gervihnattasamband í þeim efnum myndi aðeins bæta þau samskipti tímabundið og að mjög litlu leyti. Þetta litla dæmi sýnir hversu þessi mál eru öll komin nálægt okkur, öryggis- og varnarmálin.

Við eigum að sjálfsögðu að vera virkir þátttakendur í umræðu um öryggis- og varnarmál og það er afar mikilvægt að fá fræðasamfélagið með okkur. Þess vegna fagna ég sérstaklega þessari tillögu og eins og var nefnt hér er vísað í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi samþykkti 2016. Í 6. tölulið segir að stefnan feli í sér að tryggja að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum.

Við höfum náttúrlega mikla sérstöðu innan NATO. Við erum herlaust land og við stundum ekki vopnaframleiðslu. Í því felast heilmikil tækifæri fyrir Ísland sem ég hef áður minnst á í þessum sal, þ.e. að þegar kemur að friðarmálum þá veit ég að við njótum mikils trausts. Það hefur m.a. komið fram hjá framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að Ísland nýtur trausts á alþjóðavettvangi þegar að friðarmálum kemur. Auðvitað viljum við öll sjá að friðarviðræður hefjist sem fyrst í Úkraínu, milli Úkraínu og Rússlands. Það ömurlega stríð virðist ekki ætla að taka neinn enda. Ég hef sjálfur heimsótt þetta átakasvæði í Úkraínu þrisvar sinnum eftir að stríðið hófst. Það er ótrúlegt að sjá það með eigin augum og varla hægt að lýsa því með eigin orðum hversu ömurlegt þetta stríð er og það bitnar, eins og oft áður þegar stríðsrekstur er fyrir hendi, fyrst og fremst á saklausum borgurum.

Það lýtur því að þjóðaröryggisstefnu Íslands að hér sé fyrir hendi sérfræðiþekking og því er afar mikilvægt að við fáum fræðasamfélagið með okkur í að skoða hver staða Íslands er í breyttum heimi þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Það er náttúrlega alveg ljóst, eins og kemur hér fram, að sérfræðiþekkingin er einn af hornsteinum þjóðaröryggisstefnunnar. Við eigum gott starfsfólk og hæfa starfsmenn á vegum Landhelgisgæslunnar sem er með sína aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Við erum að sjálfsögðu í góðu samstarfi við Bandaríkin og hér er til staðar öflugt kafbátaleitareftirlit sem er afar mikilvægt. Það kom sérstaklega fram á þessum fundi mínum, sem ég átti í Washington fyrir skömmu og ég nefndi áðan, að þær skemmdir sem voru unnar á Nord Stream leiðslunni í Eystrasalti eru taldar hafa verið gerðar með búnaði frá kafbáti. Það hefur komið fram, á fundum sem ég hef átt þarna úti, að það er aukin kafbátaumferð hér í Norður-Atlantshafi og meðfram ströndum Íslands sem sýnir okkur að við þurfum svo sannarlega að vera á varðbergi í þessum efnum. Ég fagna því sérstaklega að Bandaríkjamenn hafa aukið þetta eftirlit, kafbátaeftirlit.

Við verðum líka að tryggja að allur sá aðbúnaður sem þarf að vera fyrir hendi, t.d. á Keflavíkurflugvelli, sé til staðar. Það er ein af þeim skuldbindingum sem við höfum gengist undir innan NATO að sú aðstaða sé fyrir hendi sem þarf að vera til staðar ef upp kæmi sú staða að hingað þyrfti að flytja búnað og mannskap vegna hernaðarógnar. Þegar kemur að þessum sérfræðimálum er náttúrlega kosturinn við svona hugveitur einmitt sá að hægt er að kalla til sérfræðinga sem hafa þekkingu hver á sínu sviði og koma saman og ræða þessi mál og setja síðan fram tillögur og greinar og annað slíkt. Það er minnst á það sérstaklega í þessari tillögu að setrið beiti sér fyrir útgáfu efnis á íslensku og ensku og standi fyrir opinberum fyrirlestrum og málþingum eitt eða í samvinnu við aðra. Ég held að það sé afar mikilvægt og sérstaklega það að við aukum útgáfu á íslensku efni, fræðaefni um þessi mál. Það eru til mjög virt tímarit, bandarísk tímarit, svo dæmi séu tekin, um öryggis- og varnarmál. Það efni er að sjálfsögðu allt á ensku en auðvitað eigum við að gera það aðgengilegra á íslensku. Ég fagna því að þetta skuli nefnt sérstaklega í þessari þingsályktunartillögu, að standa fyrir útgáfu efnis á íslensku og ensku. Mér finnst það mjög vel til fundið og er svo sannarlega þörf fyrir það. Ég sæi einnig fyrir mér að svona hugveita myndi opna fyrir umræðu innan háskólasamfélagsins, meðal háskólanema og þeirra sem hafa áhuga og láta sig öryggis- og varnarmál varðar. Staðan í heiminum er því miður orðin þannig að við þurfum að fara að huga betur að þessum málaflokki.

Eins og ég sagði áðan virðast ekki vera nein merki um að stríðinu í Úkraínu sé að linna og því miður eru þessir atburðir að færast okkur nær. Þessi tillaga er því mjög tímabær og ég fagna henni sérstaklega. Ég vona að hún verði samþykkt.