Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að þakka fyrir góða umræðu um þessi mikilvægu mál og mér sýnist vera almennur stuðningur við þetta mál og vonandi náum við góðri umræðu hratt og vel og getum klárað málið frá þinginu sem allra fyrst. Ég held að hv. þingmenn séu með á nótunum í því hversu gríðarlega stórt og mikilvægt þetta mál er, að bæta þekkingu okkar á þessu og almennt í umræðunni. Það hafa komið fram mjög margir góðir punktar í umræðunni og þetta getur tengst svo mörgum fræðasviðum. Svona setur er hugsað til að viða að sér þekkingunni en hún mun koma víða að, ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Við höfum aðeins rætt í dag fjarskiptastrengina í sjónum. Það er gríðarlega stórt viðfangsefni. Á síðustu vikum hafa borist fregnir af því að við Svalbarða og sunnan við Frakkland og við Hjaltlandseyjar, á síðustu örfáum vikum, er búið að vera að slíta strengi. Menn hafa ekki fundið neinar skýringar á því en það er eins og það hafi verið klippt á þá. Þetta er veruleikinn. Þetta er bara hluti af þessum fjölþáttaógnum sem er að eiga við þannig að þetta er bara veruleiki dagsins í dag. Við í dag treystum á örfáa strengi til að halda uppi samfélaginu hér í þessum málum. Gervihnettir geta kannski flutt 2–5% af gagnamagninu, ef við missum strengina út þá geta þeir flutt um 2–5%. Það er ótrúlega áhugavert að skoða skipulag fjarskiptastrengja í sjó, hvernig það er á heimsvísu og hvað það eru ótrúlega fá fyrirtæki sem eiga þá meira og minna og þarna undir, tengt þessu, liggur öryggi jarðarinnar ansi mikið. Netárásir og fjölþáttaógnir hlýtur að vera stórt og mikið svið tengt þessum málum í svona setri. Maður á kannski ekki að vera með fréttatilkynningar hérna en í næstu viku verður ráðstefna haldin í Reykjavík í tengslum við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Varðberg, það er nú viðkvæmt fyrir mig að auglýsa fund með Varðbergi, en við erum akkúrat að fá norræna sérfræðinga til að ræða þessi málefni frá hugveitum m.a. og fræðasamfélaginu á Norðurlöndum, tengt Grænlandi, Færeyjum, Noregi og fleiri löndum. Þannig að þetta er stór og mikil umræða og við þurfum aðeins að byggja meira undir hjá okkur þannig að við getum tekið þátt í þessari umræðu af fullum krafti. Það er mjög áhugavert og gott hvað við höfum farið hér víða yfir. Við þekkjum hvað er búið að gerast núna með kafbátaleitarvélarnar í Keflavík, hversu miklar breytingar hafa orðið á örfáum árum og hvaða starfsemi fer fram þar. Við förum vonandi fljótlega í heimsókn, utanríkismálanefnd. En það er mjög gott að fá svona góð viðbrögð við tillögunni og skilning á því hversu mikilvægt það er fyrir okkur öll að við byggjum þetta upp og ég vonast til að við klárum málið hratt og vel.