Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þar sem konur stjórna ríkir meiri hagsæld. Þar sem aukið jafnrétti ríkir er meiri hagsæld. Þar sem konur stjórna ríkir líka meiri friður og þar sem konur stjórnuðu ríkjum var betur tekið á heimsfaraldri kórónuveirunnar. Já, þetta er meðal þess sem hefur komið fram á alþjóðaþingi kvenleiðtoga sem haldið er í Hörpu þessa dagana, árlegum viðburði þar sem leiðtogar úr öllum heiminum koma saman; stjórnendur fyrirtækja, aktívistar, gamlar konur, ungar konur, fyrrverandi ráðherrar, forsetar og núverandi þjóðarleiðtogar. Þrátt fyrir þessa vitneskju er það svo að samkvæmt nýrri rannsókn Reykjavík Index 2022 má sjá stórt bakslag í viðhorfi fólks til kvenstjórnenda. Hvernig má það vera? Ungt fólk er jafnframt miklu fordómafyllra í garð kvenleiðtoga en karlleiðtoga og það munar töluverðu. Í G7-ríkjunum má sjá að 69% fólks á aldrinum 18–34 ára eru jákvæð gagnvart kvenleiðtogum en voru 72% fyrir tveimur árum. Á sama tíma er fólk á aldrinum 55–65 ára miklu jákvæðara eða 76% jákvæð gagnvart kvenleiðtogum. Ef við horfum svo á viðhorf gagnvart þjóðarleiðtogum, ekki bara leiðtogum í fyrirtækjum almennt heldur bara þjóðarleiðtogum, má sjá að í Bandaríkjunum myndu bara 45% treysta konu til að leiða landið. Í Bretlandi eru það 54% en í Japan myndu einungis 34% treysta konu til að leiða ríkið.

Já, ágæti þingheimur, jafnrétti er ekki sjálfsagt. Við þurfum alltaf að berjast fyrir jafnrétti. Við þurfum að minna okkur á það (Forseti hringir.) að svona hlutir koma ekki af sjálfu sér. Við þurfum að berjast fyrir þessu. Við þurfum að standa saman af því að það eykur hagsæld ríkja.