Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[15:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra hjartanlega fyrir að taka vel utan um beiðni mína um þessa sérstöku umræðu um hið mikilvæga málefni sem við erum að fjalla um hér í dag, geðheilbrigðismál. Ég lagði upp með fjórar spurningar til hæstv. ráðherra sem ég ætla að byrja umræðuna á.

Í fyrsta lagi: Hvað hyggst hæstv. heilbrigðisráðherra gera til að efla heilbrigðisþjónustu í landinu? Smá punktur í sambandi við það er að fyrir ári síðan sagði forstöðumaður geðþjónustu Landspítalans að þar sem áður voru mönnuð 30 stöðugildi séu nú 22 geðlæknar í færri en 20 stöðugildum.

Önnur spurning sem ég kem með og velti hér upp er: Hefur hæstv. ráðherra rætt við fagfólk í geðheilbrigðisþjónustu um vaxandi geðheilbrigðisvanda þjóðarinnar og hvernig megi koma í veg fyrir að fjöldi fólks geti ekki tekið fullan þátt í samfélaginu vegna viðvarandi geðheilbrigðisvanda og bið eftir fagþjónustu?

Í þriðja lagi: Er eðlilegt að bráðamóttaka geðþjónustu Landspítalans sé aðeins opin frá kl. 12–19 á virkum dögum og milli kl. 13 og 17 á frídögum og utan þess tíma þurfi að leita á bráðamóttökuna í Fossvogi. Í þessu tilviki langar mig að tala um að í október 2021 skrifaði hjúkrunarfræðingur, starfandi á bráðamóttöku Landspítalans til síðustu sex ára, færslu á Facebook-síðu sinni og gaf í rauninni leyfi til að birta hana og fjalla um hana, góðfúslegt leyfi. Þar talar hún um að álagið hafi vaxið á bráðamóttökunni og veltir upp hvers vegna. Er það vegna fjölgunar aldraðra, er það vegna fjölgunar ferðamanna eða eitthvað annað? Má kannski kenna heimsfaraldri um? Og ekki gleyma að Hjartagáttin var flutt yfir á bráðamóttöku og við tökum á móti þeim sjúklingum líka, segir Soffía Steingrímsdóttir. Og kæru landar, alls ekki fara í geðrof eða fá sjálfsvígshugsanir eftir kl. 19 á virkum dögum og 17 um helgar. Þá er búið að loka geðdeild. Allir sem eru í bráðum vanda vegna áfengis- og lyfjavanda koma til okkar, allir sem eru beittir ofbeldi og vilja aðstoð koma til okkar. Við vísum engum frá sem þarf á aðstoð að halda.

Í fjórða lagi kemur hér hjá mér: Hvers vegna eru fjárframlög til geðheilbrigðismála aðeins um 5% af heildarframlögum til heilbrigðismála þegar áætlað umfang geðheilbrigðismála er í kringum 25%? Þessi tala en kemur fram í umsögn Geðhjálpar fyrir fjárlögin sem nú liggja fyrir fjárlaganefnd.

Í framhaldi af því sem ég hef verið að segja hér þá vil ég aðeins segja þetta: Við þekkjum það öll og við vitum öll að það er mikill vandi í heilbrigðiskerfinu okkar, hvort heldur það lýtur að geðheilbrigðismálum eða bara almennt. Það er skortur á fagfólki. En ég verð að segja hæstv. heilbrigðisráðherra það til hróss að ég vann með honum í fjárlaganefnd áður en hann settist í stól heilbrigðisráðherra og ég hef fulla trú á því að hæstv. ráðherra Willum Þór Þórsson sé allur af vilja gerður til að gera það sem í rauninni mögulegt er. Við vorum einu sinni saman í boði hjá SÁÁ, í hádegisverði í Efstaleiti, þar sem við fengum að heyra hversu gríðarlegur vandinn þar er. Ég var hér með tilvísun í ungan mann sem hafði leitað sér hjálpar á bráðageðdeild vegna þess að hann var að reyna að komast inn á Vog, fárveikur fíkill. Það endaði með því að lögreglan kom og handjárnaði hann og henti honum í fangaklefa þar sem hann var í sólarhring. Meðferðin og umgjörðin er með ólíkindum.

Mig langar líka að vita hvort hæstv. heilbrigðisráðherra viti ekki um allnokkur dæmi þess að fólki sé í rauninni vísað frá en afleiðingarnar af því eru í rauninni óafturkræfar og bara skelfilegar.