Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[16:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni með mér hér í dag, hæstv. heilbrigðisráðherra og öllum hv. þingmönnum. Ég vildi aðeins segja hér að lokum: Hugur og hönd þurfa að starfa saman í einum einstaklingi svo að honum líði vel. Ég vil benda á að það má rekja mikið af andlegri vanlíðan og mikið af þeirri tilhneigingu að leiðast út í fíkn og áfengisneyslu og annað slíkt til hreinnar og klárrar fátæktar. Það er í raun algerlega óboðlegt að nokkrum sem leitar á bráðageðdeild Landspítalans sé vísað frá. Það er átak að leita þangað hverjum þeim sem líður það illa að hann á hvergi höfði sínu að halla og á hvergi annars staðar möguleika á því að biðja um hjálp en á bráðageðdeild Landspítalans þar sem honum er allt of oft vísað frá af því að hann er ekki orðinn nógu veikur. Því miður er þetta staðreynd. Því miður er þetta Ísland í dag. Ég vona af öllu hjarta að þetta verði það sem hæstv. heilbrigðisráðherra berjist gegn af öllum sínum mætti. Ég vona að engum einasta einstaklingi, sem á það bágt að hann finnur sig knúinn til að leita á bráðadeild geðdeildar Landspítalans, verði vísað þaðan burt.