Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum o.fl.

30. mál
[16:56]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé mál sem ætti að fá framgang í þinginu og verða samþykkt, þ.e. að skipuð verði nefnd til að rannsaka vinnuhælið á Kleppjárnsreykjum og aðgerðir stjórnvalda gegn samskiptum íslenskra stúlkna við hermenn á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Það má ekki tefjast um mörg ár í viðbót að slík rannsókn fari fram þar sem þessar stúlkur eru allar annaðhvort látnar eða komnar á efri ár. Ég tel að hér sé um mikilvæga rannsókn að ræða og það er brýnt að hún fari fram sem allra fyrst. Framkoma stjórnvalda og lögregluyfirvalda við stúlkurnar er algerlega óásættanleg. Þetta er klassískt brot, dæmigert brot, sem má ekki gleymast, má ekki fyrnast. Við verðum að geta lært af slíkum brotum og það gerum við eingöngu með því að rannsaka þau til hlítar á sem breiðustum grundvelli og senda þau skilaboð til stjórnvalda að ef þau brjóta af sér með þessum hætti þá mun það ekki gleymast.

Úti í heimi er enn verið að rannsaka brot úr síðari heimsstyrjöldinni og það er verið að draga stríðsglæpamenn komna á tíræðisaldur fyrir dómstóla, fyrir brot sem þeir frömdu á þeim tíma. Þetta er vissulega miklu minna mál en fyrir íslenskt samfélag eru brotin þess eðlis að rannsókn á að fara fram, þó að málið sé orðið gamalt. Hún á ekki einungis að ná til stjórnvalda og þeirra persónunjósna sem náðu til 500 kvenna á aldrinum 12–61 árs og til þeirra 14 stúlkna sem vistaðar voru á hælinu á Kleppjárnsreykjum. Stúlkurnar sem voru vistaðar á hælinu voru þar í dimmum og skítugum herbergjum fullum af skordýrum og það var ekkert annað í herberginu en dýna á gólfinu. Heimildir herma að stúlkurnar hafi verið einangraðar í klefunum sólarhringum saman. Eins og kemur fram í greinargerð framdi ein stúlkan sem var vistuð þar sjálfsmorð síðar á lífsleiðinni, þá ríflega fertug að aldri. Þetta voru sár sem fylgdu stúlkunum áratugum saman eftir að þær höfðu dvalið í þessum fangabúðum á Kleppjárnsreykjum.

Það er mikilvægt að rannsaka þetta mál og ég vona að rannsóknarnefndin rannsaki líka fjölmiðlaumfjöllunina á þessum tíma. Eins og framsögumaður málsins, hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson, benti á, og kemur fram í greinargerðinni, hafði hún áhrif. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Leiða má líkur að því að fjölmiðlaumfjöllunin hafi mótað almenningsálitið sem þróaðist á sömu lund og þær konur sem áttu í hlut máttu í daglegu tali þola niðrandi uppnefni og smánarorð.“

Talað er um að fjölmiðlaumfjöllun á þessum tíma hafi haft áhrif á almenningsálitið þannig að stúlkurnar urðu nánast fyrir kerfisbundnu einelti í samfélaginu og voru ofsóttar af stjórnvöldum. Stundaðar voru persónunjósnir sem eiga sér sennilega engan líka í seinni tíma sögu Íslands. Það er gríðarlega mikilvægt að málið sé rannsakað á þessum grundvelli vegna alvarleika brotsins, vegna framgöngu stjórnvalda og vegna fjölmiðlaumfjöllunarinnar. Um er að ræða gróft brot á friðhelgi einkalífsins, sem 500 stúlkur eða konur á aldrinum 12–61 árs þurftu að þola, gróft brot á mannhelgi og illa meðferð á þessum 14 stúlkum.

Það er hins vegar mikilvægt að við séum ekki alltaf að bera fortíðina við mæliglas okkar daga hvað varðar mannréttindi. Þróun í mannréttindum hefur orðið gríðarleg á seinni tímum. Það er mjög mikilvægt. Ég ítreka að ég tel mikilvægt að íslensk stjórnvöld biðjist afsökunar á þessu framferði, biðji konurnar og ekki síst aðstandendur þeirra, afsökunar. Það er grundvallaratriði. Þetta skiptir fjölskyldurnar miklu máli. Það þarf líka að skoða félagslega stöðu kvennanna. Þetta eru í flestum tilvikum, eins og framsögumaður benti á, stúlkur af lægri stéttum íslensks samfélags. Það má halda því fram að þetta hafi verið hluti af kerfisbundinni kúgun á stúlkum í lægri stéttum íslensks samfélags, á stúlkum sem voru að leita eftir frelsi þegar hingað komu hermenn frá Vesturheimi, sem þær féllu fyrir. Þær þurftu að sæta mjög grófu broti á einkalífi. Friðhelgi einkalífsins var varin í stjórnarskrá þess tíma og er enn varin í stjórnarskrá okkar tíma.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla nánar um þetta mál en ég tek heils hugar undir þessa tillögu með þeim orðum sem ég hef flutt hér. Ég vísa líka til andsvara minna við flutningsmann tillögunnar.