Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

397. mál
[18:04]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir andsvarið. Ég ólst upp í fyrrnefndu landbúnaðarhéraði, þeirri blómlegu sveit, fyrstu ár ævinnar, í húsi fólks sem hafði lifað tvær heimsstyrjaldir. Viðbrögð þess fólks við þeirri lífsreynslu voru þau að risastórt búr í kjallaranum var þéttpakkað af dósamat, ef til þeirrar þriðju skyldi koma. Dósamatur er eitthvað sem við ætlum okkur ekki endilega að nærast á nema ill nauðsyn krefji, með undantekningum. Ímynd okkar er hagfelld í flestu tilliti. Við þurfum að huga að henni þegar við ætlum að hefja stórfellda matvælaframleiðslu, bæði til eigin nota og útflutnings. Þar hafa bændur orðið fyrir nokkrum höggum að undanförnu og beðið álitshnekki, getum við sagt. Við þurfum að huga að framleiðslulandinu Íslandi sem slíku. Við þurfum að huga að því, undir kliðmjúkum bjölluhljómi, að gæta að orðspori okkar og að ekkert verði aðhafst hér sem getur skert ímynd okkar sem trúverðugs hollmetisframleiðslulands.