Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

397. mál
[18:20]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ætli við séum ekki að framleiða í lambakjöti svona helming af því sem við framleiddum fyrir 30 til 40 árum. Væntanlega er eitthvað af frystigeymslum komið til ára sinna, en megnið af þeim er til, hvort sem þær eru í notkun eða ekki. Varðandi geymslur fyrir grænmeti og annað þá er, eins og við vitum, takmarkaður geymslutími á því. Kartöflur geymast ágætlega yfir veturinn í góðum geymslum og þess háttar. Ég bara þekki ekki nógu vel geymslutíma og geymsluþol á ákveðnum afurðum en kjöt má geyma í töluverðan tíma, í marga mánuði, jafnvel ár. Umfram allt snýr þetta að því að við kortleggjum stöðuna, að við eigum alltaf eitthvert visst magn af ákveðinni vöru í landinu ef allt fer á versta veg. Um það snýst málið í hnotskurn.