153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

dýravelferð.

[10:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Jú, hún ber ábyrgð en samt sem áður er það Matvælastofnun sem keyrir skútuna. Staðreyndin er sú að þetta svar hæstv. ráðherra var nákvæmlega það sem ég bjóst við. Hún er að firra sig allri ábyrgð. Hún hefur 100% heimild, hvort sem er í reglugerðum eða einfaldlega að fylgja lögum um dýravelferð. Lög um dýravelferð eru algerlega skýr hvað lýtur að því ef dýrum líður illa eða þau eru vanfóðruð eða þau eru hrædd og ég veit ekki hvað maður getur talið upp sem kemur fram í dýravelferðarlöggjöf. Það er verið að brjóta dýravelferðarlöggjöfina frá A til Ö og það er vitað af Matvælastofnun, það er vitað af hæstv. ráðherra, þannig að ég hvet hana til dáða og til að fara eftir þeim heimildum sem hún hefur, beita því valdi sem hún hefur. Ef hún treystir sér ekki til að gera það þá skal ég gjarnan leysa hana af sem matvælaráðherra og sjá um þessa dýravelferð þótt það væri ekki nema bara til að klára að laga það sem miður er að fara hér fyrir framan allan landslýð.