153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

viðhald á kirkjum.

[10:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég gleymdi nú að byrja á því sem hefði verið við hæfi, að óska hæstv. ráðherra til hamingju með endurkjör sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Á landsfundi flokksins var lítillega rætt um kirkjumál þó að niðurstaða flokksins hafi kannski ekki verið eins afgerandi og stjórnarskráin hvað varðar hlutverk stjórnvalda við að vernda og viðhalda þessari meira en 1000 ára gömlu menningarstofnun og mikilvægu stofnun í samfélaginu. En ég vona a.m.k. að staðið verði við kirkjujarðasamkomulagið og það uppfyllt í samræmi við það sem fyrir lá þegar það var gert, enda engin ástæða til annars. Ég hvet hæstv. ráðherra til að lýsa því afdráttarlaust yfir að þessi meira en 1000 ára grundvallarstofnun í sögu þjóðarinnar verði ekki algerlega vanrækt af hálfu ríkisvaldsins.