153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - Ein umræða. .

[11:31]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Fyrir þá sem horfa getur þetta einhvern veginn verið orð á móti orði. Ég hef ekki heyrt neinn halda því fram, sem vel þekkir til, að við séum ekki með metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Upphefðin kemur að utan. Ég hef rætt þetta á alþjóðlegum fundum og hef aldrei heyrt þau sjónarmið að Ísland sé ekki með metnaðarfull markmið, bara aldrei. Ég held að verkefni okkar núna, og það er það sem ég legg áherslu á, sé ekki bara að tala heldur framkvæma. Við vitum öll að við þurfum að hafa okkur öll við til að ná þessu. Sumir segja að þetta skipti ekki máli því við erum svo lítil. Jú, það skiptir máli að við sýnum gott fordæmi og það sem við gerum mun nýtast okkur og öðrum þjóðum. Ég get ekki, virðulegi forseti, verið sammála hv. þingmanni þegar hann segir að þetta séu ekki metnaðarfull markmið.