153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. .

[11:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra fór hér nokkuð hratt yfir hugrenningar sínar um þessi mál þannig að ég náði ekki alveg öllu en mun lesa ræðu hæstv. ráðherra til að setja mig betur inn í afstöðu hans. Þó tók ég eftir talsverðri áherslu á hversu mikið umfang þessara mála væri að aukast hér á Íslandi eins og annars staðar. Hæstv. ráðherra til að mynda státaði sig af því að vera með 13 stofnanir undir sér og 500 stöðugildi og enn fleiri starfsmenn. Getur verið að það sé of miklu varið í að stækka skriffinnsku og utanumhald í þessum málaflokki og ekki nógu miklu í það sem gæti fært okkur lausnir, t.d. tæknilegar framfarir? Ég veit að það er veittur stuðningur við slík verkefni en er forgangsröðunin rétt? Eigum við ekki á hættu að það vaxi sífellt stærra bákn í kringum þennan málaflokk á kostnað lausna sem gætu haft veruleg áhrif?