153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. .

[11:45]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég kannast ekki við að það hafi verið spáð heimsendi og ætla ekki að fara að byrja á því núna. Það sem hins vegar er að gerast og enginn deilir um það er hlýnun jarðar, við finnum mest fyrir því á norðurhveli. Hv. þingmaður spurði mig einhvern tímann að því af hverju við færum ekki í aðlögun en það er eitt af því sem við erum að leggja áherslu á, bæði á ráðstefnunni en ekki síður í vinnu hér á Íslandi því að það er nokkuð sem við þurfum að gera. Síðan eru menn að reyna að hægja á þessari hlýnun af því að menn hafa áhyggjur af afleiðingum hennar. Hv. þingmaður vísaði til Kína og Indlands og það liggur alveg fyrir að við náum ekki neinum árangri ef þau taka ekki fullan þátt í þessu. Það liggur fyrir. Það er hins vegar ánægjulegt að sjá og gott dæmi um hvað þau geta gert að það var nú íslensk tækni sem var notuð til að búa til stærstu hitaveitu í heimi, sem er ekki lengur á Íslandi heldur í Kína. Bara með þessari hitaveitu í þessari litlu borg í Kína þá sparaðist jafn mikill útblástur og allur útblástur Íslendinga.