153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. .

[11:46]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi, á 27. aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins, verður spurt: Hvert er framlag Íslands? Öll ríkustu lönd í heimi verða spurð um framlag sitt og það skiptir máli hvert framlagið er og það skiptir máli að það sýni ríkan vilja og að við séum tilbúin til að sýna gott fordæmi þannig að við getum þá líka gert kröfur til annarra. Það verður auðvitað spurt líka um fjármuni. Það verður spurt um framlög í græna sjóðinn og það verður spurt um hraða aðgerða. Ísland þarf að hafa svör við öllum þessum spurningum.

Ég þarf ekki að fara yfir hvað sagt hefur verið í upphafi þessarar ráðstefnu hér nema að minna á að aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna var sannarlega ómyrkur í máli við upphaf þessarar mikilvægu ráðstefnu í Egyptalandi. Eins og hér hefur komið fram erum við allt of langt frá því og hættulega langt frá því að ná að halda hamfarahlýnun innan við 1,5° eða 2°C. Við stefnum í tæplega 3°C og við vitum hvaða afleiðingar það hefur vegna þess að það hefur verið kortlagt í hverri skýrslunni á fætur annarri frá vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál hvað gerist og við horfum núna á þessar breytingar verða á jörðinni. Jörðin brennur, það eru flóð, hamfaraveður, fólk er farið að flytja sig um set vegna þess að landgæði eru að rýrna og það er ekki hægt að búa á stórum hlutum jarðarinnar. Við verðum að horfast í augu við þetta. Við verðum að axla alla þá ábyrgð sem okkur ber og það er í rauninni auðvelt fyrir Ísland að axla þá ábyrgð vegna þess að við erum svo heppin að búa í auðlindaríku landi þar sem við getum virkjað endurnýjanlega orkugjafa og við getum líka aðstoðað aðrar þjóðir við að gera það.

Mig langar aðeins til að nota tækifærið hér, frú forseti, og vitna í formann loftslagsráðs sem sagði, með leyfi forseta:

„Orkukrísan“ — og á hann þar við orkukrísuna í Evrópu — „er fyrst og fremst vegna þess að við höfum ekki framkvæmt Parísarsamninginn og höfum ekki framkvæmt loftslagssamninginn. Það hefur legið fyrir mjög lengi að eina lausnin til að koma í veg fyrir meiri háttar röskun á veðrakerfum jarðarinnar er að hætta að nota olíu, kol og gas.“

Þetta vitum við. Orkukrísan er birtingarmynd aðgerðaleysis í loftslagsmálum. Við eigum að bregðast við eins og við getum á grunni þeirrar vitneskju sem við höfum — ég sé, frú forseti, að tími minn er að verða búinn. Voru þetta ekki þrjár mínútur? Þess vegna verð ég að geyma það til síðari tíma að ræða um réttlætismálin og kröfur G-77 sem Pakistan fer nú fyrir.